Fékk símtal frá starfsmanni Morgunblaðsins – sem Agnes Bragadóttir kallaði eftirminnilega „eina alvöru dagblaðið á Norðurlöndum“. Hr. írvakur hefur óumbeðið sent mér eintak af Mogganum á hverjum degi í mánuð. Nú vildi útgáfufélagið vita hvort ég hefði hug á að gerast áskrifandi. Ég afþakkaði og spurði hvort þau myndu senda til mín mann til að bera pappírshauginn út í næsta endurvinnslugám. Það er er víst ekki partur af þjónustunni.
Hafi ég einhverntímann haft lítinn áhuga á að kaupa Moggann, þá er það núna. Blaðið er endanlega að flippa í stuðningi sínum við stríðið í írak. Ein gleggsta birtingarmynd þess eru aðsendu greinarnar. Þar fá 3-4 greinar á dag flýtimeðferð þar sem pönkast er á þeim sem ætla að kaupa auglýsinguna í New York Times. Af efni sumra þeirra má sjá að þær birtast daginn eftir að þær berast. Á sama tíma veit ég til þess að styttri og betur skrifaðar greinar gegn stríðinu þurfa að lágmarki að bíða í 2-3 vikur, sumar mun lengur.
Mogginn hefur ítrekað hafnað frambærilegum greinum – sem síðar hafa birst á öðrum vettvangi, s.s. í Fréttablaðinu – bara vegna þess að þar birtist gagnrýni á: Nató, veru hersins eða utanríkisstefnu Íslands. Þegar kemur að þessum málum, þá flippar Mogginn.
Núna mun Davíð Logi væntanlega senda mér lesendabréf og staðhæfa að Morgunblaðið sé prókúruhafi sannleikans og að með því að gera lítið úr því sé ég að hæðast að hetjudáðum hans í útlöndum. Það verður bara að hafa það.