Áfangar

Óskaplega er það góð tilfinning að ná að ljúka stórum áfanga í­ stóru verkefni. Fundaði í­ Útvarpshúsinu í­ dag vegna Gettu betur, þar sem ég skilaði af mér handriti fyrir stóran hluta keppninnar, samkvæmt áætlun. Næsta skref er að raða saman útvarpskeppnunum. Þær verða væntanlega fimmtán í­ fyrstu umferð og fara fram á fimm kvöldum í­ sömu viku. Á morgun, miðvikudag rennur skráningarfrestur út. Býst við 30 keppnisliðum, sem yrði met.

Annar stóráfangi sem kláraðist um helgina var að mála stofuna. Hún hefur nú stækkað um þriðjung að mér finnst. Ljóta sprungan í­ loftinu böggar mig ekki framar. Á leiðinni röðuðum við upp á nýtt. Mun ég sakna þess að konan í­ húsinu á móti geti ekki horft á mig í­ stofusófanum þar sem hún stendur úti og reykir daginn út og inn?

Með nýju ári þurfum við að ganga í­ að kaupa hillur í­ stofuna, til að geta komið þangað einhverju af þessu bókafargani sem er að gera okkur vitlaus eða vitlausari. Á sjónvarpinu voru fréttir af því­ að Íslendingar væru kaupóðir og fokkuðu upp viðskiptajöfnuðinum með skefjalausum kaupum á neysluvarningi. Við hristum hausinn yfir því­ hvað þjóðin er vitlaus og ábyrgðarlaus.

Svo byrjuðum við að reikna saman: fyrr á árinu keyptum við okkur í­búð, ruddum öllu út úr baðinu, fórum í­ utanlandsferð, létum grafa upp klóakið og skipta um dren umhverfis húsið. Núna langar okkur í­ hillur og erum að gæla við að ryðja út eldhúsinu og búa til gesta-/barnaherbergi – og það helst fyrir vorið. – Við ábyrgðarlaus? Neinei – allir hinir er í­ neyslukapphlaupi, við erum bara í­ eðlilegum fjárfestingum…

# # # # # # # # # # # # #

Brentford vann Hincley. Þar með er ljóst að við mætum þeim í­ 3ju umferð bikarsins. Það verður sæt hefnd.