Óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka…
Hversu oft hefur þessi frasi verið notaður síðustu daga eftir hörmungarnar í Suð-austur Asíu? Ég verð jafn pirraður í hvert sinn sem ég les þetta eða heyri það sagt.
Á fyrsta lagi er ekki lógískt að óttast tölfræðina sjálfa, heldur það sem á bak við hana stendur. Ef 1.200 manns deyja í staðinn fyrir 1.000 þá hörmum við þessi 200 mannslíf sem á milli ber, en ekki það að tala látinna hafi hækkað um 20%. Það er statistík.
En gott og vel – sleppum útúrsnúningum – segjum sem svo að við skiljum alveg hvað við er átt. Hugsum okkar að það sé hungursneyð í héraði í Súdan og nú þegar hafi 1.000 manns látist. Ef til vill óttast hjálparstofnanir að annað þúsund til viðbótar muni látast á næstunni – þá mætti kannski segja að „óttast sé að tala látinna eigi eftir að hækka“.
Sömuleiðis gæti þetta orðalag gengið upp varðandi flóðin í Asíu ef verið væri að ræða um hættuna á kólerufaröldrum og annarri óáran sem brotist gæti út. Þá eru jú nokkur rök til að segja að „óttast sé að tala látinna eigi eftir að hækka“.
En í fjölmiðlum síðustu daga hefur merkingin verið önnur. Hugtakið tala látinna hefur öðlast sjálfstæða merkingu. Það vísar ekki lengur í þann fjölda sem látist hefur í sjálfum hamförunum, heldur opinbera tölu yfirvalda. Þessi opinbera tala virðist svo vera hinn eiginlegi harmleikur í hugum margra og breytingar á henni mælikvarðinn á hörmungarnar.
Ef grunur vaknar um að mikið mannfall á afskekktu svæði, þá væri rétt að segja að óttast sé að x mikið fleiri séu látnir en talið hafi verið – harmleikurinn er eftir sem áður genginn um garð. Fólk deyr þegar það drukknar í flóðbylgjunni, ekki þegar Hagstofan í Indónesíu veitir dánarvottorðinu móttöku.
Jæja – þá er ég búinn að tappa af mér með þetta!