Auðvitað er það ekkert gamanmál þegar menn fá sendar nafnlausar hótanir um ofbeldi og meiðingar. Jafnvel þegar hótanir af þessu tagi virðast augljóslega settar fram án þess að ætlunin sé að hrinda þeim í framkvæmd. Þannig fannst mér aldrei gaman þegar rugludallar hringdu heim í Frostaskjólið og voru með einhverjar hótanir þegar mamma var formaður herstöðvaandstæðinga á sínum tíma. Sjálfur man ég ekki eftir að hafa fengið nafnlausar hótanir, fyrir utan 2-3 bréf frá einhverjum brjálæðingi sem taldi að ég væri samsærismaður. Hann sá ástæðu til að tilkynna mér að hann fylgdist með mér og væri slyngur í djúpsálarfræði.
En þó að nafnlausar hótanir séu ekkert grín, þá var ekki hægt að verjast glotti yfir frétt DV í gær, föstudag, um Morfís-þjálfarann sem hótað var öllu illu ef lið hans tapaði ekki „viljandi“ í næstu umferð. Þetta mun vera þjálfari Hraðbrautar sem á næstu dögum keppir við Borgarholtsskóla. Besta setningin í greininni var eitthvað á þá leið að „aukin harka virtist vera að færast í ræðumennskuna!“
Finnst engum öðrum en mér fyndin tilhugsunin um Morfís-bullur? Hugsið ykkur gengi brjálaðra stuðningsmanna ræðuliða sem fara um með hafnaboltakylfur og engu eira! – Á sínum tíma kynntu Radíusbræður til sögunnar „skáktöffarana“, en ég held að „Morfís-bullurnar“ séu enn flottara fyrirbæri!
# # # # # # # # # # # # #
Gömlu, tengdó, mágur minn og mágkona komu í kvöldmat áðan. Á borðum var hamborgarhryggur sem reyndist listagóður. Nenntum ekki að sykra kartöflurnar, enda hefði þá þurft að flysja þær og það er leiðindavinna. Soðnar kartöflur voru bornar fram með þessu og þeir sem vildu sætmeti gátu étið sultutau. Sykurbras er ofmetið í sambandi við kartöflur, ekkert fær mig ofan af því.
# # # # # # # # # # # # #
Á morgun stend ég frammi fyrir vali. Ætti ég að vera góður maki og flokksfélagi og fylgja Steinunni á einhvern VG-fund í Suðurgötunni, ætti ég að fara að huga að því að klára námskeiðslýsinguna fyrir kúrsinn sem við Sverrir Jakobs erum að fara að kenna ásamt Þorsteini Vilhjálmssyni eða ætti ég að dobbúltékka spurningarnar fyrir fyrstu GB-keppnir vetrarins á mánudagskvöldið kemur? Fjórði og vænlegasti kosturinn er að sitja heima límdur við netið og fylgjast með textalýsingum á bikarleik Luton og Brentford. Þessi möguleiki er augljóslega sá skúnkalegasti og ópródúktívasti. Eitthvað segir mér þó að hann muni færast ofar á listann eftir því sem nær dregur.
# # # # # # # # # # # # #
Fór í göngutúr út á Seltjarnarnes með pabba á tólfta tímanum. Norðurljósin voru dásamlega falleg í kvöld. Eru norðurljós að verða algengari yfir Reykjavík í seinni tíð eða tek ég bara betur eftir þeim með aldrinum?