Þrjár afar ólíkar keppnir í kvöld. Úrslit sem hér segir:
Menntaskólinn í Kópavogi 17 : Kvennaskólinn 12. Kópavogsskólinn með tvo liðsmenn frá því í fyrra sem komst í Sjónvarpið. Ef mig misminnir ekki munu þeir eiga eitt og tvö ár eftir í keppninni. Á fyrra sagði ég að MK væri bráðefnilegt og spáði því að það kæmist í hóp þeirra sterkustu 2006. Við þann spádóm stend ég. Kvennaskólinn var eins og í fyrra skipað hressum krökkum og hefði getað unnið ýmis önnur lið í keppninni.
Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri – bændadeild 14 : Menntaskólinn á ísafirði 14 (14:15 e. bráðabana). Þessi keppni var hnífjöfn frá upphafi til enda, þótt nánast engin stig litu dagsins ljós nema úr tóndæmum og hraðaspurningum. ísfirðingar mörðu sigur og hafa nú viku til að bæta sig. MÁ er ásamt Iðnskólunum í Reykjavík og Hafnarfirði eini framhaldsskólinn sem tekið hefur nokkuð reglulega þátt í GB án þess að komast í Sjónvarp. Það munaði sáralitlu í fyrra. Spurning hvað gerist núna.
Menntaskólinn á Egilsstöðum 20 : Stýrimannaskólinn 9. Þessi viðureign var eitthvert það mesta rugl sem ég hef lent í varðandi þessa keppni nokkru sinni. Bæði lið tættu út bröndurunum, fullt af svörunum voru kostulega fyndin, ég fokkaði gjörsamlega upp talningunni í hraðaspurningunum fyrir bæði mér og Steinunni Völu, hún víxlaði stigum síðar í keppninni, Logi klúðraði því að gefa ME svarréttinn í einni víxlspurningunni – og svo mætti lengi telja. GB-jaxlarnir úr hinum skólunum, sem fjölmenna alltaf á keppnirnar, sátu aftast og emjuðu af hlátri. Öllum stóð svo hjartanlega á sama um stigaskorið, enda úrslitin alltaf ljós.
Egilsstaðir hafa tvö ár í röð verið mjög nærri því í að komast í sjónvarpið. Að þessu sinni eru þeir með fínt lið sem á fullt erindi þangað. Á útsláttarkeppni er það þó ekki alltaf nóg. ME-liðið verður væntanlega með öndina í hálsinum þegar kemur að því að draga í næstu umferð.
Á morgun eru þrjár keppnir, en hætt er við að tómlegt verði hjá okkur í Útvarpshúsinu. Fyrst mætast MR og Vestmannaeyjar, að því gefnu að takist að senda tæknimann til Eyja. (Hef engar veðurfréttir séð og veit því ekki betur en að það eigi að ganga.) Á annarri viðureigninni mætast MS og Verkmenntaskólinn á Akureyri, þar sem hinir síðarnefndu verða vitaskuld fyrir norðan. Þriðja keppnin er grannaslagur Húsvíkinga og Laugalima – sömuleiðis frá Akureyri. Með þrjú af sex liðum í hljóðstofu fyrir norðan kom til tals að við skelltum okkur þangað, en þar sem keppnin er svona stíf – fimm keppniskvöld í röð – þá varð ekkert úr því.
En það er sem sagt um að gera að stilla á Rás 2 annað kvöld, kl. 20.
# # # # # # # # # # # # #
Hefur komið fram nýlega hversu frábæra konu ég á? Jæja, það er þá í það minnsta búið að bóka það hér með.