Þriðja keppniskvöld í GB er að baki. Þar verð ég að játa á mig fáránlegan dómaraúrskurð, en sem betur fer réðu þau ekki úrslitum. Það fáránlegasta við mistök þessi var að ég og allir aðrir gerðu sér grein fyrir því að úrskurðurinn væri rangur meðan á því stóð – meira um það síðar…
Menntaskólinn í Reykjavík 30 : Fjölbrautaskólinn í Vestmannaeyjum 11. Þessar tölur segja raunar allt um keppnina. MR-ingar tefla fram mjög þéttu og góðu liði, sem að öllu leyti er skipað nýjum mönnum. Voru rólegir og yfirvegaðir í hraðanum sem skilaði góðum árangri. Hæsta stigaskorið til þessa, tveimur stigum meira en Borgarholt fékk – þótt Borghyltingar hafi vissulega átt í höggi við sterkari andstæðing.
Menntaskólinn við Sund 19 : Verkmenntaskólinn á Akureyri 8. Fyrirhafnarlítill sigur hjá MS-ingum sem voru mjög stressaðir, minnugir ófaranna í fyrstu umferð í fyrra. Efniviðurinn er góður hjá MS sem mun komast í röð þeirra bestu. Verða samt að slaka betur á næst.
Framhaldsskólinn á Laugum 12 : Framhaldsskólinn á Húsavík 10. Úff – hér áttu þessi fáránlegu mistök sér stað. Laugaliðið hafði haldið 2-3 stiga forystu alla keppnina og virtust með þetta allt í höndum sér fyrir lokaspurninguna. Þá hófst fáránleg atburðarás…
Bæði liðin voru í hljóðverum á Akureyri. Bæði voru með þrjá stráka innanborðs og raddir þeirra svipaðar. Tóndæmin voru með léttasta móti. Þar var annars vegar spilað lag með Mugison úr Næslandi og spurt um mynd og flytjanda. Hins vegar lag með Slowblow úr Nóa Albínóa.
Húsvíkingar urðu ofsakátir þegar Mugison var spilaður og sögðu svarið. Og Logi sagði: „Rétt“. Vandinn var að Laugar áttu svarréttinn.
Á 99% tilvika hefðu mistökin fattast um leið – samherjar þess sem svaraði reynt að þagga niður í honum, hitt liðið hrópað „hey!“ eða – ef annað liðið a.m.k. hefði verið í hljóðverinu – hefðum við stjórnendurnir séð hvers kyns var.
Auðvitað er bara ein rétt leið til að taka á svona máli: að láta fljótfærnina bitna á viðkomandi liði. Á þessu tilviki hefði orðið að gefa Laugum tækifæri á að endurtaka svarið og hirða stigið. – Þannig áttum við náttúrlega að bregðast við og það vissum við í raun mætavel.
En einhvernveginn auluðumst við ekki til þess. Kannski var þetta einhver manngæska þar sem Húsavík hafði sannast sagna ekki svarað mörgum spurningum rétt? Sennilega hugsuðum við Logi það sama – að hin spurningin væri þess eðlis að engar líkur væru á að Laugar fengju ekki a.m.k. annað stigið úr henni. Þannig myndu Laugar vinna keppnina – sem maklegt var – en án þess að hægt væri að segja að Húsavík hefði „gefið þeim sigurinn“.
Logi stakk því upp á að litið yrði fram hjá þessum mistökum – Laugar fengju að spreyta sig við spurninguna sem Húsavík átti að fá og þannig myndum við sjá hvort þetta hefði nokkur áhrif á úrslitin. Laugar samþykktu þetta – sem var stórmannlega gert af þeim. Ef lið Laugaskóla hefði mótmælt, hefðum við ekki gripið til þessa ráðs og þeir einfaldlega fengið stigin.
Laugar tóku stig og losuðu okkur þannig úr klemmunni. Ef þeim hefði mistekist það og Húsavík náð báðum stigunum, hefði ég gripið til bráðabana en það hefði samt verið vond niðurstaða.
Eftir stendur að við Logi vorum ekki nógu grimmir í kvöld. Við áttum skilyrðislaust að refsa Húsavík fyrir þessi mistök sín. Þetta verður ekki endurtekið – næsta lið sem gjammar fram í þegar hitt liðið á svarréttinn verður að súpa af því seyðið. Ég bið Laugarskóla afsökunar og þakka þeim kærlega fyrir það göfuglyndi að leyfa okkur að grípa til þessa ráðs. Alveg er ég viss um að Laugalimum finnst miklu skemmtilegra að geta strítt nágrönnum sínum á Húsavík eftir þessi málalok, heldur en ef úrslitin hefðu ráðist með öðrum hætti!
Jamm.