Alltaf skemmtilegt þegar blöð birta hlið við hlið fregnir sem eru í mótsögn. Á Moggavefnum mátti í morgun sjá hlið við hlið undir dálknum „erlent“:
* Ekkja Bob Marleys segist ekki ætla að láta grafa hann í Eþíópíu
* Ekkja Bobs Marleys vill láta grafa hann í Eþíópíu
Á neðri fréttinni er sagt frá því að íbúar á Jamaíku séu ævareiðir vegna þeirra áforma að umpotta Marley og koma honum í jörðu nærri Ras Tafari í Eþíópíu.
Á efri fréttinni er sagt frá því að ekkja Marleys þræti fyrir allt saman.
# # # # # # # # # # # # # #
Á Guardian í morgun er mjög áhugaverð frétt um nýja tilgátu um orsakir Parkisons-sjúkdómsins. Leitt er líkum að því að notkun skordýraeiturs í landbúnaði sé um að kenna.
Nú hef ég enga læknisfræðilega þekkingu til að meta hvort eitthvað vit kunni að vera í þessari tilgátu, en vonandi kveikja einhverjir íslenskir fréttamenn á málinu og spyrja sérfræðinga. Parkisons-sjúkdómurinn er ein af stóru óleystu gátunum sem vestræn læknavísindi eiga við að stríða.
Vef-Þjóðviljinn mun væntanlega skammast yfir þessum fréttum og kalla kommúnistaáróður eða þaðan af verra. Allir þeir sem leyfa sér að draga í efa notkun eiturefna í landbúnaði eru glæpamenn að mati nafnlausu einstaklingshyggjumannanna þar á bæ.
# # # # # # # # # # # # #
Rétt í þessu var að ljúka heimsókn 9. bekkinga út Kópavagsskóla í Rafheima. Mjög skemmtilegir og áhugasamir krakkar. Eins og það getur verið leiðinlegt að taka á móti slöppum og áhugalausum gagnfræðaskólanemum, þá eru engar skólaheimsóknir eins upplífgandi og þegar maður nær að kveikja áhuga hjá 15 ára krökkum.
Á stundum sem þessum skilur maður hvers vegna nokkur maður fæst til þess að kenna á unglingastigi.