Sit við tölvuna og drekk viský. Var að opna nýja flösku úr ríkinu, Glendronach 12 ára. Viský-biblía Michael Jacksons (hugsa sér, að sitja uppi með þetta nafn) ber þessum drykk vel söguna, en mér finnst hann í það sætasta. Fullmikið karamellu-bragð. Ætla samt að gefa þessu smá séns í viðbót. Á það ber að líta að ég er búinn að lepja Westmalle og Newcastle Brown Ale í allt kvöld og því farið að slá í bragðlaukana.
Blótið var þrælfínt. Fullt af fólki, eins og alltaf þegar blót eru auglýst í fjölmiðlum. Ekki fékk ég að lyfta horni fyrir Heimdall, en tók þeim mun hraustlegar undir þegar drukkið var heill Frey – maður verður jú að þakka frjósemisguðnum fyrir hans framlag.
Fórum snemma heim, þar sem Steinunn var komin með verk í bakið. Það er farið að síga í að hafa þessa viðbótarþyngd framan á sér. íðan reyndi ég af vilja frekar en mætti að nudda aumustu blettina. Hafði ekki áttað mig á því hvað þetta getur tekið í og hversu hratt það gerist.
Á tilefni bóndadagsins færði Steinunn mér gjöf – það var nýja útgáfan af Örlaganóttinni, einni bestu Múmínálfabókinni. Hún verður lesin í næstu viku.
# # # # # # # # # # # # #
Kennslan í námskeiðinu í Háskólanum heldur áfram. Við Sverrir höfum tekið þann pól í hæðina að láta nemendurna lesa undirstöðuefnið fyrir tímana, en taka fyrirlestrana í að mata þá á viðbótarfróðleik og setja efnið í nýtt og óvænt samhengi. Þetta held ég að geri námskeiðið mun skemmtilegra en ella, en reynir jafnframt talsvert á að við undirbúum okkur almennilega.
Markmiðið er að vakna snemma í fyrramálið: semja nokkrar spurningar, berja saman einn DV-pistil og undirbúa kennsluna. Herra Glendronach hér á borðinu gæti þó sett strik í reikninginn.