Það er varla að ég muni hvenær ég fór síðast út á föstudagskvöldi – eða í það minnsta, hvenær ég var ekki kominn í hús fyrir miðnætti. Þetta kvöld var ekki undantekning.
Kom heim úr vinnunni um sexleytið, settist strax upp í rúm með tölvuna í kjöltunni (sem mér skilst að þyki ekki heilnæmt í seinni tíð) og skrifaði fótboltapistil fyrir mánudagsútgáfu DV. Á níunda tímanum héldum við á Hamborgarabúllu Tómasar til að gúffa í okkur. Hef ekki étið þarna áður og var harla sáttur. Ekki eins gott og Gleym-mér-ey-borgarinn á Vitabar, en betra en flestir hamborgarar sem völ er á í borginni.
Komum aftur heim eftir matinn. Steinunn sökkti sér niður í Sjónvarpið, en ég datt oní viskýskápinn og spurningasamningu fyrir undanúrslitaleikina tvo í GB. Held ég hafi búið til ansi sniðuga vísbendingaspurningu…
* * *
Á morgun er í mörg horn að líta. Fæðingarnámskeið, 2.dagur byrjar upp úr hádegi, þá á víst að sýna okkur fæðingardeildina á lansanum. Held að tilgangurinn með námskeiðinu sé sá einn að létt ljósmæðrunum lífið þegar kemur að því að skáka okkur fram og til baka í lok apríl.
Klukkan þrjú hefst svo leikur ársins – Luton : Hull. Við erum með hálfgert B-lið. Jafntefli væri frábært…