Annasamur dagur í meira lagi. Tók á móti hóp frá Austurbæjarskóla í morgun. Fínn hópur, en erfiður vegna þess að stór hluti nemendanna talaði litla eða enga íslensku. Kennararnir í Austurbæjarskóla eru ekki öfundsverðir og þyrftu að hafa miklu fleira aðstoðarfólk ef vel ætti að vera. Ég spurði hvernig krökkunum gengi að læra íslenskuna og fékk þau svör að eitt vandamálið væri að fá íslensku krakkana til að nota íslensku í samskiptum sínum við þau. Krakkarnir vilja þjálfa sig í ensku og grípa helst til hennar.
Heimsókn til ísu ljósmóður seinnipartinn. Nú verð ég að fara að setja mig inn í þessi fæðingarorlofsmál, hvenær sækja þurfi um í orlofssjóðinn o.þ.h. Ekki seinna vænna.
Fæðingarnámskeiðið, 3.hluti, seinni partinn – að þessu sinni farið yfir lyf sem nota má við fæðingar. Fræðslufundur fyrir aðstandendur í MS-heimilinu í kvöld, taugalæknir situr fyrir svörum. Beint að því loknu bruna ég í fótbolta vestur í bæ.
Allt mun þetta leiða huga minn frá leik kvöldsins – Hartlepool : Luton. Eftir sigurinn á laugardaginn væri ekki hundrað í hættunni þótt leikurinn tapaðist og jafntefli væri bara helv. fínt. Búast má við færslu um málið laust fyrir miðnætti…
Les á bloggsíðum GB-keppenda að viðureign Versló og MK á morgun fari ekki fram í íþróttahúsi Versló, heldur í Bláa-sal Verzlunarskólans. Það er fínn salur en með ansi litlu sviði. Þar vann maður nú nokkra sigra í ræðukeppni í gamla daga en tapaði öllu fleirum…