Þær sankast að manni bækurnar um þessar mundir.
Eftir að hafa keypt fulla innkaupakörfu af bókum á markaðnum í Perlunni fyrir helgi, hafði Einar Gunnar – pabbi Óla Jó – samband við mig. Hann er að vinna við að fara í gegnum dánarbú Dóru heitinnar (og þar með Óla Jó eldri) og bað mig um að athuga hvort það væru ekki einhverjar bækur í safninu sem ég hefði augastað á. Þegar yfir lauk var heill kassi í aftursætinu á bílnum, voru þar æviskrár, Danmerkursaga fram að einveldi, 100 ár í Þjóðminjasafni, 2-3 greinasöfn o.fl.
Það var skringilegt að koma inn á Aragötuna svona tómlega, eftir allar þær stundir sem maður eyddi þar á sínum tíma. Hið sigursæla spurningalið MR æfði linnulítið í stofunni á Aragötunni fyrstu þrjú árin. Þarna horfðum við Óli á ítalska boltann fyrst eftir að Stöð 2 fór að sýna hann og á blíðviðrisdögum var frábært að sitja í garðinum. Þar er sannkallaður suðupottur í góðu veðri. – En núna var þetta allt frekar melankólískt.
Til að kóróna bókahamstrið fékk ég síðdegis hringingu, þar sem ég var beðinn um að lesa tvær bækur og fjalla um innan tíðar. Féllst umhugsunarlaust á erindið (enda önnum kafinn – og við þær aðstæður er hægt að fá mig til að samþykkja hvað sem er). Innan klukkutíma var hraðsendill kominn með bækurnar í hús. Nú tekur við stífur lestur næstu kvöld.
# # # # # # # # # # # # #
Stífur dagur á morgun hjá heimilisfólkinu á Mánagötu. Ég mæti aftur í vinnuna eftir dagsfrí og tek annað kvöld í frágang á spurningum fyrir GB. Steinunn stendur hins vegar í ströngu seinni partinn. Fyrst flytur hún ávarp á dagskrá í Ráðhúsinu á alþjóðlegum baráttudegi kvenna og svo aftur um kvöldið á stofnfundi kvennahóps Öryrkjabandalagsins. Þessi stuttu ávörp eru síst minni höfuðverkur en löngu ræðurnar – það get ég vottað af eigin reynslu, enda hefur Steinunn tekið drjúgan tíma í að semja þetta.
Er ég stoltur af kerlingunni minni? – Heldur betur!