Anna Kristjánsdóttir ræðir í dag um lóðaframboð í Reykjavík. Hún segir:
Ef hátt verð er á lóðum er það vegna þess að of lítið framboð er af lóðum. Það að aukning hefur orðið á lánsfé í bönkum er aðeins ein ástæða af fleirum fyrir of háu lóðaverði. Það er hinsvegar umhugsunarvert af hverju borgarstjórn dreif ekki í að hrista fram slatta af lóðum um leið og aukningin varð á bankalánunum á síðastliðnu hausti. Það er sárlegt að hugsa til þess hve borgin hefur tekið seint við sér í lóðamálum og er það borginni til vansæmdar. Svo er reynt að klóra yfir skítinn með því að kenna bönkunum um lóðaskortinn og allt of hátt íbúðaverðið.
Líklega eru fleiri á því máli að Steinunn Valdís sé ekki að koma alltof vel út úr þessari umræðu. En eitt finnst mér alveg gleymast í málinu:
Nú er það yfirlýst stefna Reykjavíkurborgar að þétta byggð, einkum með því að endurskipuleggja gömul strjálbýl svæði eða fjarlægja atvinnufyrirtæki úr miðri borg og rýma fyrir háum húsum.
Gott og vel – menn geta haft ýmsar skoðanir á því hvort þetta sé rétt stefna, en flestir samþykkja hana þó í orði. (Auðveldari samgöngur, hagkvæmari rekstrareiningar, o.s.frv.)
Vandamálið er að það eru tvö ósamrýmanleg markmið að ætla annars vegar að þétta byggðina með því að láta verktaka kaupa upp dýrym dómum fullt af húsnæði og lóðum inni í borginni, en bjóða á sama tíma upp á skítnóg af hræódýru landi hálfa leiðina til Selfoss og Akraness.
Það er ekki hægt að skamma Reykjavíkurborg fyrir hvort tveggja: að þenja byggðina endalaust út og fyrir að vera ekki nógu dugleg að ýta undir byggingar á jöðrunum.
Annars finnst mér í hvert einasta skipti sem ég fer út fyrir bæinn að þar séu sprottin upp ný hverfi eða stórbyggingar. Ég get svoleiðis svarið það að Húsasmiðjan var varla mánuð að reisa risastóra verslun fyrir neðan hverfið þar sem allar göturnar heita eitthvað-geisli eða helgislepjunöfnum.