70 þúsund manns söfnuðust saman í síðustu viku á götum Beirút til að mótmæla hernámi Sýrlendinga í Líbanon. Heimspressan bjó til hugtakið „Sedrus-bylting“ og Bandaríkjastjórn stökk til og lýsti því yfir að drápin í írak væru loksins farin að leiða til lýðræðisvakningar í arabaheiminum.
Tæpri viku síðar heldur hálf milljón út á göturnar til að lýsa yfir stuðningi við Sýrlendinga. Einhvern veginn er eins og spenningurinn og gleðin sé horfin úr röddum fréttamanna þegar kemur að þessum mótmælum. Enginn hefur í það minnsta nennt að skeyta orðinu byltingu aftan við einhverja trjátegund til að lýsa þessum mótmælum.
Merkilegt hvað menn gleyma hratt. Á sínum tíma þótti Vesturlandabúum og þá sérstaklega Bandaríkjastjórn innrás Sýrlendinga vera hið besta mál. Þeir héldu niðri vinstrisinnuðum hreyfingum og Palestínumönnum.
Afstaðan til Sýrlendinga fer því miður ekki eftir línunum: lýðræðissinnar gegn and-lýðræðissinnum.
Þeir sem mótmæltu Sýrlendingum fyrir viku voru drúsar, súnnítar og kristnir íbúar Líbanon. Hinir, sem nú lýsa yfir stuðningi við sýrlenska hernámsliðið, eru einkum shía-múslimar – sem eru 40% íbúanna. Það er ekki einu sinni ljóst hvor hreyfingin er stærri.
Á dögum kalda stríðsins leið fjölmiðlum á Vesturlöndum ekki vel fyrr en búið var að skipta öllum stríðandi fylkingum í þriðja heiminum upp í tvær fylkingar: þá sem studdu Sovétríkin annars vegar – en „lýðræðissinna“ hins vegar. Oft svissuðu einstakir stríðsherrar milli liða eftir því sem á leið.
Á dag gengur ennþá allt út á að búa til tvö lið: lýðræðissinna og andlýðræðissinna, þótt erfitt sé að skilja á hverju sú flokkun byggist í mörgum tilvikum. Þegar fyrri hópurinn heldur út á göturnar tala menn svo um: „rósabyltingar“; „flauelsbyltingar“ eða „sedrus-byltingar“.