Mér skilst að allir sem eru komnir yfir miðjan aldur muni hvar þeir voru þegar Kennedy var skotinn. Sjálfur man ég hvað ég var að gera þegar ég frétti að Indira Gandhi hefði verið sölluð niður af svikulum lífverði. – Og jú, ég verð að játa – ég man líka hvar ég var þegar fréttin um dauða Díönu barst…
Munu unglingar samtímans muna alla tíð hvað þeir voru að sýsla þegar þeir fréttu að Auðun Georg Ólafsson hefði verið ráðinn í millistjórnendastöðu á Útvarpinu? Varla. Samt mætti halda að Hekla væri farin að gjósa. Það berast ekki einu sinni fregnir af Sæma rokk og Fischer vini hans lengur.
Ég þykist vita að fjandinn verði laus á athugasemdakerfinu mínu út af þessari færslu, en ég ætla samt að láta vaða:
Staðreynd: Framsóknarflokkurinn er sá flokkur sem rekur subbulegustu hagsmunapotspólitík sem til er. Á forystusveit Framsóknarflokksins eru einstaklingar sem ganga ótrúlega langt í að hygla sínum mönnum og líta á það sem sjálfsagðan hlut að útbýta opinberum embættum sem bitlingum til sinna manna.
Um þetta þarf svo sem ekki mikið að deila. Staðhæfingin hér að ofan getur talist almenn og viðurkennd sannindi.
Þegar kemur að Framsóknarflokknum er alltaf rétt og skylt að vera á varðbergi. Enginn skyldi treysta Framsókn yfir þröskuld. Fátt er svo verðlaust að þeir reyni ekki að stela því og selja það aftur dýru verði.
Á þessu fréttastjóramáli eru menn hins vegar gjörsamlega að tapa sér.
Eitt dagblaðið sló því upp að afi Auðuns Georgs hefði verið samverkamaður Ólafs Jóhannessonar – sem var formaður Framsóknarflokksins fyrir mannsaldri – og því þyrfti ekki frekari vitnanna við um að samsæri væri á ferð. Annað blað gerði Auðun að trúnaðarvini nánlega hvers einasta Framsóknarmanns undir fertugu (sem reyndar er ekkert voðalega stór hópur). Næst verður væntanlega grafið upp að foreldrar hans hafi oft verslað í Miklagarði á níunda áratugnum!
Með svona æfingum er hægt að gera flesta Íslendinga tortryggilega. Ef menn vilja leita uppi tengslin og gera þau tortryggileg, þá þarf nú sjaldnast að leita lengi í ekki stærra samfélagi. Sjálfur hef ég oft heyrt sögur af þeim harðsvíraða „Reykjavíkurlista-klíkuskap“ sem á að hafa tryggt mér starfið mitt hjá Orkuveitunni. Gott ef Alfreð Þorsteinsson átti ekki að hafa mig í vasanum í krafti ráðningarvaldsins. (Á meðan staðreyndin er sú að ég byrjaði sem sumarstarfsmaður á safninu samhliða háskólanum, varð að lokum fastráðin og er á rétt ríflegum kennaralaunum.)
Það er auðvitað spennandi að búa til magnaðar samsæriskenningar um að lítil ljót klíka í Stjórnarráðinu hittist reglulega og bruggi launráð. (Ekki misskilja mig: það er vissulega til klíka, hún er ljót en því miður ekki nógu lítil.) En stundum eru einföldu skýringarnar betri.
Auðun Georg er góður drengur. Hann er klár, hefur komið víða við og er mjög góður í viðkynningu. Ég kynntist honum í gegnum starfið hjá Framherjum, stuðningsmannaklúbbi FRAM og hef ekkert nema gott um hann að segja. Ef eitthvað er, myndi ég reyndar segja að einn af hans stærri göllum sé hversu LíTILL plottari hann er – þótt annað mætti kannski ætla af fréttum.
Er fáránlegt að ætla að Auðun Georg hafi einfaldlega komið vel út úr viðtölunum og þannig unnið útvarpsráð á sitt band? Þegar ég var í skólanefnd MR, hið fyrra skipti – þá sem fulltrúi nemenda – lentum við í því að velja rektor skólans. Fráfarandi rektor lagði ríka áherslu á að við veldum tiltekinn umsækjanda og hann kom vel til greina. Á ákvörðunarferlinu komst nefndin inn á þá sameiginlegu niðurstöðu að Ragnheiður Torfadóttir væri besti kosturinn og við mæltum með henni. Eftir á fengum við að heyra fullt af samsæriskenningum frá þeim sem ekki urðu fyrir valinu og stuðningsmönnum þeirra – þar sem plottið var ýmist rakið í ráðuneytið eða Ráðhúsið…
Mér dettur ekki í hug að segja að Auðun Georg sé augljóslega hæfasti maðurinn í djobbið – margir aðrir umsækjendur komu til greina. En það er jafn fáránlegt að tala um hann sem óhæfan umsækjanda og varpa því fram að ekkert annað en margslungið flokkspólitískt samsæri hljóti að liggja ráðningunni að baki. Hversu oft heyrist ekki sú gagnrýni að RÚV sé stöðnuð stofnun? Er þá endilega ljóst að rétt sé að ráða bara reynslumikla innabúðarmenn í allar stöður?
En segjum svo að samsæriskenningarnar séu réttar – og allt sé þetta plott hjá Framsóknarmafíunni til að tryggja sér „sinn mann“ á fréttastjórastóli – þá held ég að þessir sömu mafíósar verði fyrir vonbrigðum. Ef þeir voru að leita að auðsveipum flokkshundi, þá er Auðun ekki rétti maðurinn.
Jamm.