Óðinn dóni

Á dögunum keypti ég einu Valhalla-teiknimyndasöguna sem vantaði í­ safnið. Þetta er bók nr. 11 (af 12) og fjallar um Óðinn og skáldamjöðinn.

Þessi bók er sú þyngsta í­ serí­unni og raunar magnað að höfundarnir hafi lagt í­ að prjóna svo flókna sögu inn í­ teiknimyndasöguformið. Verð að viðurkenna að ég er það ryðgaður í­ sögunni um Kvasi og Hæni að ég var við það að missa þráðinn – tel mig þó betur heima í­ goðafræðinni en flestir lesendur.

Á þessari bók kemur enn einu sinni fram að Óðinn er skúnkur bókaflokksins. Hann er eigingjarn, siðblindur og hinn versti dónakarl. Hann fyllir Gunnlöðu og flekar hana sí­ðan. Hann dreymir blautlega dagdrauma um Freyju, en í­ annarri bók í­ serí­unni – sögunni af Brí­singameninu, reyndi hann að þvinga hana til ásta. – Persónur Valhalla-bókanna eru undantekningarlí­tið sympatí­skar – en Óðinn er eina undantekningin. Merkilegt!

# # # # # # # # # # # # #

Watford gæti verið að falla! 18 sæti, þremur sætum en aðeins einu stigi frá fallsæti – og Coventry og Nottingham Forest eiga bæði leiki til góða. Watford hefur nú fengið 2 stig af 24 mögulegum í­ sí­ðustu leikjum. Þeir skiptu um þjálfara á dögunum. Sá byrjaði á að skjóta sig í­ fótinn eftir fyrsta tapleikinn með því­ að segja með áhersluþunga „I´m a winner“ og útskýra að það gengi gegn náttúru hans að tapa. Mikið betri skotfæri gátu stuðningsmenn hinna liðanna vart fengið í­ hendur.

Watford eru erkifjendur Luton. Fyrr í­ vetur, þegar telja mátti lí­klegt að Luton færi upp en ósennilegt að Watford félli, þóttust Luton-menn vera stórir: sögðust vonast til að Watford héldist uppi til að fá Derby-leik á næsta ári…

Núna, þegar sætið má heita í­ höfn og staða Watford verður stöðugt verri, hefur grí­man fallið og þórðargleðin er ómenguð. Einhverjir stuðningsmenn tala um að skjóta saman í­ rellu með borða sem myndi hæðast að Watford-mönnum og fljúga með yfir vellinum í­ leiknum sem liðið færi niður. Aðrir setja saman ní­ðví­sur og annað hvert lag sem sungið er á pöllunum á okkar leikjum um þessar mundir gengur út á að hlakka yfir óförum þeirra.

Eru menn stórir í­ sigri? Nei, svo sannarlega ekki!