Það er stórmerkilegt við „Allt í drasli“-þættina á Skjá einum, að þó komið sé heim til fólks sem ekki hefur vaskað upp í viku og sleppt því að fara með ruslið út í mánuð – þá eru aldrei neinar bækur inni á baðherbergi. Þetta vekur undrun mína, þar sem ég hélt að ALLIR geymdu einhverjar bækur inni á baði. Kannski er þetta það eina sem fólkið ryður til áður en tökumennirnir koma í heimsókn?
Klósettbókmenntir eru vitaskuld talsvert frábrugðnar öðrum bókum. Dýrar, innbundnar bækur hafa lítið að gera þar inni. Sömuleiðis er þetta ekki staðurinn fyrir mörghundruðsíðna doðranta. Hið fullkomna lesefni á þessum stað eru skrípasögur, t.d. Gary Larson eða Dilbert-bækur.
Á Mánagötunni eru um þessar mundir fjórar bækur eða pésar á klósettinu. Þær eru:
i) Bókatíðindi 2004. Bókatíðindi eru tilvalin klósettlesning í desember og fram eftir vetri notaði ég þau óspart til að fá hugmyndir að spurningum fyrir GB. Það er hins vegar ekkert annað en framtaksleysi að þau séu þarna ennþá.
ii) Have it your way, Charlie Brown. Gömul Smáfólks/Peanuts-teiknimyndabók. Man ekki hvernig mér áskotnaðist hún. Kannski ég ætti að fara að skipta henni út fyrir Siggu Viggu eftir Gísla ístþórs?
iii) CIA´s 50 Greatest Hits. Pési sem fjallar um 50 af þekktustu samsærum, morðum og valdaránum sem CIA tengist eða er talið tengjast. Ein opna fyrir hvert mál. Markmið höfundar er að samtvinna húmor og pólitískan áróður. Hvort tveggja tekst heldur illa, en samantektin er ágæt fyrir því.
iv) Postmodernism for Beginners. Þessi sería …for beginners, er bráðskemmtileg. Ef ég man rétt byrjaði Svart á hvítu að gefa hana út á íslensku og út komu bækurnar „Vistfræði fyrir byrjendur“ og „Freud fyrir byrjendur“. Þar er tvinnað saman stuttum textum og skemmtilegum myndskreytingum/teiknimyndasögum. Eitthvert forlagið mætti gjarnan taka upp þráðinn, það hlýtur að vera ódýrara núna með betri prenttækni.
# # # # # # # # # # # # #
Ekki var hún hugguleg nunnumyndin í Sjónvarpinu í gær. Ég missti af fyrstu mínútunum og kom fyrst að skjánum eftir áð inn í klaustrið var komið. Ég fékk því talsvert sjokk undir lok myndarinnar þegar ég fattaði hversu nærri okkur í tíma sagan gerðist. Sögusviðið var sjöundi áratugurinn, en mér fannst þetta endilega vera 20-30 árum fyrr.
Ekki þar fyrir að það er lítil lógík í því að vorkenna frekar persónum fyrir það eitt að standa manni nær í tíma…