Fékk Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar inn um lúguna í gær. Þar er einkum fjallað um fyrirhugaðar breytingar á gatnamótum Miklubrautar/Kringlumýrarbrautar, með fjölgun aðreina og fráreina, betri ljósastýringu o.s.frv.
Við fyrstu sýn virðist mér þessar breytingar líklegar til að létta mjög á þessum umtöluðu gatnamótum. Aldrei hef ég skilið þessa endalausu umræðu um þau og þetta rugl með að mislæg gatnamót á þessum stað myndu útrýma umferðarhnútum í Reykjavík. Augljóslega myndu þau einungis ýta tappanum niður að gatnamótum Lönguhlíðar og Miklubrautar, þar sem engir möguleikar eru til úrbóta nema þá helst með því að rífa fjölda húsa.
Ég fer um Miklubrautar/Kringlumýrarbrautargatnamótin 2-4 sinnum á dag. Stundum oftar. Þau valda mér ekki miklu hugarangri. Mér finnst ég ekki vera lengi í vinnuna úr Norðurmýrinni í Elliðaárdalinn. Öðru máli gegndi hins vegar þegar ég bjó á Hringbrautinni úti við ínanaust. Þá gat ferðin í vinnuna tekið óratíma, því Hringbrautin var svo seinfarin.
Þess er varla langt að bíða að nýja Hringbrautin verði opnuð og þá mun væntanlega vænkast hagur þeirra sem þurfa að fara milli Austurbæjar og Vesturbæjar. Fólk virðist ekki almennilega gera sér grein fyrir umfangi þessara framkvæmda í jaðri Vatnsmýrinnar. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að á sama tíma og þessar framkvæmdir eru í fullum gangi, skuli fólk væla og skæla yfir því að aldrei sé gert neitt í stofnvegakerfinu á höfuðborgarsvæðinu!