Lét plata mig í spurningakeppni síðdegis á talstöðinni. Ólafur Bjarni Guðnason, dómari í Gettu betur árin 1994-5 og einn af mönnunum í kringum „Viltu vinna milljón?“ sér um spurningaleik í léttum dúr alla miðvikudaga.
Andstæðingurinn var ekki af verri endanum – öðlingurinn Svenni Guðmars. Við vorum því saman komnir þrír fyrrverandi GB-dómarar.
Ég var ljónheppinn með spurningar. Mín bókmenntaspurning var um Brotahöfuð eftir Þórarinn Eldjárn, sem við Svenni höfum báðir lesið. Hans var um Vélar tímans eftir Pétur Gunnarsson, sem hvorugur vissi mikið um. Þar að auki fékk ég tvö stig fyrir Newton-spurningu sem ég hefði aldrei getað svarað nema út af vísindasögunámskeiðinu okkur Sverris.
Fyrir vikið hafði ég betur og á að mæta aftur næsta miðvikudag. Ég hlakka bara til þess, enda Ólafur Bjarni einhver mesta spurningakempa landsins.