Á hádeginu drakk Ólína 200 millilítra af þurrmjólkurblandi nánast í einum rykk. Það er ekki lítið fyrir manneskju sem er innan við þrjú og hálft kíló. Fór að slá á það í huganum hver væri samsvarandi tala fyrir sjálfan mig. Það eru um það bil sex lítrar.
Ef ég þambaði sex lítra á tæðum hálftíma og einhver hallaði mér fram og klappaði á bakið á mér – þá myndi ég líka ropa eins og rússneskur sjóari.
# # # # # # # # # # # # #
Steinunn er á Sankti Jósepsspítala í Hafnarfirði í lyfjakúr til að vinna gegn MS-einkennum. Hún hefur ekki farið í stera í ár og það var farið að draga verulega af henni.
Á föstudaginn kemur hún heim aftur og eftir svona viku verður hún orðin sterk eins og Lína Langsokkur.
# # # # # # # # # # # # #
Hreinsunarmenn á vegum VíS halda áfram að ryðja út reykmengaðri búslóð af Mánagötunni. Þetta skotgengur hjá mönnunum. Frábært samt að upplifa hversu margir hafa hringt eða sent okkur tölvupóst og boðið fram aðstoð sína ef þurfa þykir.
Ég hef ekki komist í að svara öllum þessum tilboðum, enda í fjári mörgu að snúast núna. En við kunnum vel að meta hlýhuginn. Takk!
# # # # # # # # # # # # #
Enn eitt árið bætti einhver unglingurinn dúxametið í MR. Einkunnaverðbólgan er orðin algjört rugl. Hvers vegna klára menn ekki bara dæmið í eitt skipti fyrir öll, gefa einhverju barninu hreina 10 og þá er hægt að fara að snúa sér að einhverju öðru.
Verst að sá/sú sem fær fyrstu hreinu tíuna mun alltaf enda í ræsinu. Það er skrifað í skýin…
# # # # # # # # # # # # #
Heyrði brot af þætti Freys Eyjólfssonar, „Geymt en ekki gleymt“. Viðmælendurnir voru Silfurtónar.
Þetta eru fínir þættir og með þeir er Freyr að vinna íslenskri tónlistarsögu ómetanlegt gagn, með því að festa á stálþráð gríðarlegt magn fróðleiks og skemmtilegra mola. – Meira af þessu!