Ég er fótboltanörd og sagnfræðinörd. Eins og allir þeir sem falla undir báðar þessar skilgreiningar, hef ég brennandi áhuga á HM í fótbolta. Þegar ég var 12 ára vissi ég fáránlega mikið um sögu þessarar keppni og öll helstu úrslit. Á seinni tíð reyni ég að halda þessu innan skynsamlegra marka.
Sem HM-nörd fylgist ég með undankeppninni af ákafa – einkum heimsálfunum fyrir utan Evrópu. Alltaf vonast maður svo til að sjá nýjar þjóðir komast í úrslitakeppnina: fyrsta skiptið er ætíð eftirminnilegast.
Ekki verður uppskeran hins vegar góð að þessu sinni – óttast ég.
Á Evrópu má telja ljóst að Úkraínumenn komist áfram og þar með í fyrsta sinn í úrslitakeppni. (Þótt raunar sé kjánalegt að tala um „fyrsta skipti“ Úkraínu í þessu sambandi, þar sem 1986 liðið var borið uppi af leikmönnum frá Dynamo Kiev.)
Annað Evrópuland sem gæti komist í „fyrsta sinn“ í úrslitin er Slóvakía, sem á möguleika á öðru sæti í sínum riðli og þar með umspili.
Strangt til tekið er Serbía & Svartfjallaland ekki sama Júgóslavía og keppt hefur á HM, en mér er til efs að þeir yrðu skilgreindir sem nýliðar.
Önnur ný lönd koma ekki til álita frá Evrópu.
+
Öll þáttökulöndin í Suður-Ameríkuriðlinum hafa komist í úrslitakeppni nema eitt, Venesúela. (Surinam, Guyana og Franska-Guyana keppa í Norður- og Mið-Ameríkuriðlinum.) Til skamms tíma var Venesúela með afleitt knattspyrnulið, en Eyjólfur hefur verið að hressast á síðustu misserum. Vonir stóðu til að landið kæmist áfram að þessu sinni, en það virðist ansi fjarlægt markmið sem stendur.
+
Asía olli vonbrigðum í þeim skilningi að öruggu fjögur sætin lentu öll í höndum stórþjóða sem áður hafa keppt til úrslita.
Fimmta sætið gefur hins vegar kost á leik við þjóð frá Norður- og Mið-Ameríku um að komast til Þýskalands. Á leiknum um fimmta sætið mætast Bahrain (sem ekki hefur komist í úrslit) og annað hvort Kúveit (sem fór í úrslit 1982) eða Úsbekistan (aldrei komist). Kúveit dugir jafntefli gegn Úsbekum til að komast áfram, en leikurinn er í Tashkent – svo ég veðja frekar á Úsbeka.
+
Andstæðingar Úsbeka/Bahreina/Kúveita koma frá Vesturálfu. Þar eru tvö af þremur öruggum sætum frátekin fyrir Bandaríkin og Mexíkó. Þrjú lönd berjast um þriðja örugga sætið og umspilssætið við Asíumennina. Þetta eru Kosta Ríka, Guatemala og Trinidad & Tobago. Fyrstnefnda landið hefur keppt í úrslitakeppni og er jafnframt sigurstranglegast.
Kæmi mér ekki á óvart þótt Guatemala hafnaði í fjórða sæti og mætti Úsbekum í umspili. Held að Asíubúarnir séu sterkari.
+
Nýja-Sjáland er eina þjóðin frá Eyjaálfu sem komist hefur í úrslit (1982). Nýsjálendingar afrekuðu hins vegar að falla úr keppni fyrir liði Salomonseyja, sem etur kappi við ístrali um sigurinn í Eyjaálfuriðlinum.
ístralir mega teljast öruggir um sigur gegn áhugamönnunum frá smáríkinu, en úrslitin skipta svo sem litlu. Líklega mun þjóðin í fimmta sæti S-Ameríkukeppninnar (Paraguaey, Chile, Uruguay eða Kólumbía) sigra í umspilinu.
+
Síðast en ekki síst er það Afríka.
Þar eru tvö gömul stórlið nokkuð örugg um sæti í úrslitum: Marokkó og Suður-Afríka.
Tvö önnur stórveldi í afríska boltanum eru hins vegar í vondum málum: Egyptaland og Kamerún. Bæði eru þau í riðli sem Fílabeinsströndinni, sem hefur tveggja og þriggja stiga forystu á þau hin. Bæði Egyptar og Kamerúnar eiga eftir að halda til Abidjan og leika þar við heimamenn. Fílabeinsströndin er því í bullandi séns að komast áfram í fyrsta sinn.
Senegal var eitt af spútnikliðum síðasta heimsmeistaramóts og var spáð nokkuð öruggum sigri í sínum riðli. Öllum að óvörum er Togo hins vegar í efsta sæti og með tveggja stiga forystu þegar þrjár umferðir eru eftir. Þann átjánda júní mætast Senegal og Togo í Dakar. Takist Togo að hanga á jafntefli, er liðið með pálmann í höndunum og ætti greiða leið á HM í fyrsta sinn í sögunni. Það verður þó að teljast ólíklegt.
Sama dag mætast í Kano í Nígeríu lið heimamanna og Angóla. Liðin eru efst og jöfn með 14 stig eftir 7 umferðir af 10. Það lið sem sigrar er því komið langleiðina á HM, en jafntefli myndi gera stöðuna afar spennandi. Nígería hefur áður komist í úrslit en Angóla aldrei.
Þannig er nú það!