Stefnt er að því að flytja inn á Mánagötuna um næstu helgi eða þar um bil. Við feðgarnir höfum staðið í málningarsnatti og senn förum við að geta tekið aftur við hlutum búslóðarinnar, sem hefur verið í reykhreinsun úti í bæ.
Þar sem útilokað er að fá iðnaðarmenn um þessar mundir, þurfum við hins vegar að útbúa bráðabirgðaeldhús. Vaskurinn lafir enn, en auk hans þurfum við að kaupa ísskáp sem síðar fellur inn í endanlega eldhúsinnréttingu. Þá er eftir vandamálið með eldavélina.
Til að þurfa ekki að lifa á samlokum og jógúrti (auk þess að nauðsynlegt er að sjóða pela barnsins) þurfum við lágmarkseldunaraðstöðu.
Og þar komið þið inn í dæmið – kæru lesendur þessarar bloggsíðu!
Á einhver hraðsuðuhellur, helst borð með tveimur hellum, til að lána okkur um óákveðinn tíma (líklega framyfir miðjan ágúst)? Ég tími því fjandakornið ekki að kaupa svona græju fyrir ekki lengri tíma en þetta.
Svör óskast í athugasemdakerfið.
# # # # # # # # # # # # #
Ofboðslega munar miklu í verði á ískápum eftir því hvort þeir eru úr áli, stáli eða plasti. Kælibúnaðurinn er sá sami, þannig að maður áttar sig ekki alveg á því í hverju munurinn liggur. Veit eitthvert heimilistækjanördið hvort stálískápar séu svona miklu betri en t.d. plastískápar?
# # # # # # # # # # # # #
Ég furða mig á Völsurum. Núna er rosalegur uppgangur hjá félaginu, stórframkvæmdir framundan og velgengni á vellinum. Engu að síður virðist félagið ekkert gera til að láta á sér bera í Norðurmýrinni. Þróttarar bera leikskrá fyrir helstu heimaleiki sína í hús í hverfinu, en ég minnist þess ekki að hafa séð neitt frá Völsurum.
Það er reyndar mjög metnaðarfullt hjá Þrótturum að gera tilkall til Norðurmýrarinnar – hverfis sem liggur mun nær bæði Val og Fram.
# # # # # # # # # # # # #
Breska fyrirburamyndin er endursýnd í Sjónvarpinu í kvöld. Hún var áður á dagskrá þegar Steinunn var að komast á steypinn. Líklega myndi ég betur höndla á þessa mynd núna en þá. Ætla samt ekki að taka sénsinn.
# # # # # # # # # # # # #
Steve Howard aðalmarkaskorari Luton samdi á nýjan leik við félagið fyrir helgi. Því fagna allir stuðningsmenn. Líklega mun hópurinn ekki stækka svo neinu nemi fyrir átök vetrarins. Á næstu viku verður kynnt leikjaplanið. Hver veit nema að maður skoði það gaumgæfilega með tilliti til þess hvort raunhæft sé að skella sér á einhvern stórleikinn?
Kannski ég reyni að draga nafna minn Hagalín á Luton – QPR?
# # # # # # # # # # # # #
Það virðist hafa rignt rækilega á gesti á Þingvöllum í dag. Við feðgarnir stóðum í málningarvinnu og fórum því hvergi. Steinunn var eitthvað að spá í að skella sér, en heyktist á því – sumpart vegna veðursins og sumpart vegna þess að hún er enn ekki búin að fyrirgefa Viggu Finnboga fyrir Kastljósþáttinn á dögunum þar sem hún ÞAKKAíI körlum fyrir að hafa gefið konum kosningaréttinn fyrir 90 árum.
Konur skulda körlum engar þakkir fyrir það mál. Sjálfur hef ég lengi talið koma til greina að svipta karlmenn kosningarétti í eins og nokkrar aldir til að jafna reikningana. Vissulega væri það ekki lýðræðisleg aðgerð en líklega happadrjúg – enda hafa konur undantekningarlítið betri skoðanir í stjórnmálum en karlar ef marka má skoðanakannanir.
# # # # # # # # # # # # #
Ekkert efstu deildarlið fallið út úr bikarkeppninni ennþá. Reikna með að þau fari öll tíu í næstu umferð.
Hvaða mótherja vil ég fá þar? Tja, það væri ekki slæmt að fá útileik gegn KR. Það gefur mest í kassann (er ekki örugglega deilt aðgangseyrinum í bikarkeppninni?) Sigurleikir okkar í Frostaskjólinu hafa helst komið í bikarnum og mig þyrstir í hefndir eftir tapið í 2. umferðinni.
KR úti er því efst á óskalistanum. Njarðvík heima þar á eftir…