Ég steingleymdi að blogga um úrslitin í HM-forkeppninni í Afríku um helgina. Þar var mikið af stórmerkilegum úrslitum og skyndilega von á óvæntum og spennandi sigurvegurum í flestum riðlum.
1. riðill:
Senegal gat komið sér á topp riðilsins og langleiðina í úrslitakeppnina með því að sigra Togo á heimavelli. Úrslitin urðu hins vegar 2:2 jafntefli.
Staðan þegar tvær umferðir eru eftir, er því þessi:
Togo 17 stig
Zambía 16 stig
Senegal 15 stig
Togo má ljúka keppni með jafn mörg stig og hvort hinna liðanna, vegna hagstæðari innbyrðisúrslita. Á septemberbyrjun heldur Togo til Malí, meðan Zambía og Senegal mætast. Um miðjan október tekur Togo svo á móti Líberíu. Möguleikarnir á stórkostlega óvæntum úrslitum í þessum riðli eru því miklir.
2. riðill
Ghana gerði góða ferð til Suður-Afríku og fór þaðan með öll stigin og skyndilega eru vonir Suður-Afríkumanna um HM-þátttöku í uppnámi. Tvær umferðir eru eftir og bæði lið hafa 15 stig, en Ghana betra innbyrðisleikjahlutfall.
Næst mætir Ghana liði Úganda á heimavelli og heldur svo til Grænhöfðaeyja. Það er afar viðráðanlegt verkefni og Suður-Afríka mun væntanlega sitja heima – sem mun valda miklum titringi innan FIFA, enda væri fjarvera gestgjafa HM 2010 áfall fyrir sambandið. Ekki vera hissa þótt reynt yrði að vísa Ghana úr keppni líkt og gert var við Mexíkó fyrir HM 1990 til að koma Bandaríkjamönnum til ítalíu.
3. riðill:
Fílabeinsströndin stóð í lappirnar gegn Egyptum á heimavelli. Egyptar eru því úr leik, ígústi Flygenring (síðbúnum knattspyrnuunnanda) til sárrar armæðu. Staðan er þessi:
Fílabeinsströndin 19 stig
Kamerún 17 stig
Næst mætast Fílabeinsströndin og Kamerún. Á lokaumferðinni fara Fílabeinsstrandarmenn til Súdan, sem er enn án sigurs. Með öðrum orðum – jafntefli á heimavelli nálega tryggir Fílabeinsströndinni afar óvæntan farseðil til Þýskalands. Það yrði áfall fyrir Kamerún.
4. riðill:
Stórtíðindi ársins í afríska boltanum eru hér í uppsiglingu! Angóla náði jafntefli á útivelli gegn liði Nígeríu og er í góðum málum. Staðan:
Angóla 15 stig
Nígería 15 stig
Þar sem Angóla hefur betur í innbyrðisviðureignum dugar þessu stríðshrjáða landi að fá jafnmörg stig úr lokaleikjunum og Nígería. Það ætti ekki að vera svo erfitt því Angóla á eftir heimaleik gegn miðlungssterku liði Gabon og útileik gegn botnliði Rwanda. Nígería á hins vegar útileik gegn Alsír og heimaleik gegn Zimbabwe sem öllum að óvörum er í þriðja sæti riðilsins með 12 stig. Það eru ekki litlar fréttir.
5. riðill:
Túnis stendur vel að vígi í þessum riðli:
Marokkó 8 leikir 16 stig
Túnis 7 leikir 14 stig
Túnis á sem sagt leik til góða, heima gegn Kenýa um miðjan ágúst. Því næst mætast liðin aftur í Nairobi og á sama tíma tekur Marokkó á móti Botswana. Loks mætast Túnis og Marokkó í Túnisborg. Fyrirfram er Túnis því í góðri stöðu, en mega ekki misstíga sig í næstu leikjum.
– Er ég fótboltanörd? Nei – ég er fótboltanördIí!