Bleyjur

Eitt af því­ fyrsta sem við Steinunn gerðum eftir að við fluttum aftur inn á Mánagötuna, var að skipta aftur yfir í­ taubleyjur úr pappableyjum. Þrengslin í­ Frostaskjólinu og skortur á þurrkaðstöðu gerði það að verkum að við neyddumst til að skipta við herra Pamper.

Gallinn við pappableyjurnar (fyrir utan umhverfissjónarmiðið) eru hvimleið lykt, auk þess sem húð barnsins virtist roðna undan plastinu. Nú verður Pampers-samsteypan hins vegar að draga seglin saman á ný, því­ gömlu taustykkin hafa verið dregin fram á nýjan leik.

Taubleyjurnar hafa einungis tvo galla. Einu sinni á sólarhring, þegar stelpan losar gúanóið, bölvum við því­ að geta ekki bara skutlað ófögnuðinum út í­ tunnu í­ stað þess að þurfa að skola úr vöndlinum. Hinn gallinn er sá að taubleyjurnar eru býsna fyrirferðarmiklar. Krakkinn verður svo hjólbeinóttur að það er hægt að nota hana sem sirkil.

# # # # # # # # # # # # #

Horfði í­ kvöld á 2. flokkinn tapa fyrir Skagamönnum. Úrslitin voru ekki ósanngjörn. Framararnir eru með marga flinka stráka, en Skagastrákarnir eru stórir og sterkir. Hvers vegna er unglingaliðin af Skaganum alltaf svona sterkbyggð?

# # # # # # # # # # # # #

Um tí­ma leit út fyrir að allt röltið með barnavagninn um götur borgarinnar, myndi gera mig grannan og spengilegan – í­ fyrsta sinn sí­ðan ég vann sem ruslakarl fyrir áratug. Sú von er nú að engu orðin – eftir að ég uppgötvaði Ostabúðina á Skólavörðustí­g. Þar er hægt að kaupa oststykki sem eru miklu ferskari en pakkavaran sem seld er í­ súpermörkuðunum. Sömuleiðis eru sallafí­nar spænskar pylsur sem seldar eru eftir vigt.

Þar sem leið mí­n með vagninn liggur yfir Skólavörðuholtið á degi hverjum fram hjá búðinni, er viðbúið að ég muni hamstra osta og kjöt eins og kreppan væri handan við hornið. – Reyndar heyrði ég það í­ fréttunum í­ kvöld að ASÁ teldi að kreppan SÉ handan við hornið…

# # # # # # # # # # # # #

Heimilisiðnaður fjölskyldunnar á Mánagötunni hófst að nýju í­ morgun eftir nokkurt hlé. Við þrykktum út 300 barmmerkjum fyrir Snarsveit Reykjaví­kur. Það er einhvers konar lúðrasveit sem nokkrir vinir Vigdí­sar mágkonu standa fyrir. Mér skilst að Snarsveitin stefni að Íslandsmeti í­ tónlistarflutningi – þar sem stefna á saman fjölda fólks til að spila.

Slagorð sveitarinnar eru aulgjóst: Ertu snar?