Ég hefði betur sleppt því að kvarta yfir mætingunni í síðasta þriðjudagsbolta, þar sem við vorum sex talsins. Að þessu sinni mættu bara fimm og við dunduðum okkur í einsparki eins og í gamla daga. Það er nú varla alvöru boltaspark.
# # # # # # # # # # # # #
Lenti á Stöð 2 í þætti með Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni að ræða um stríðið og írak. Hannes brást ekki vonum áhorfenda með því að koma inn sögu þar sem fram kom að hann hefði drukkið te með Möggu Thatcher. Jafnframt skilgrindi hann grundvallarmuninn á Íslam og kristni. Hann er í stórum dráttum sá að Kristnir menn hafa alltaf trúað á Jesú eins og hann birtist okkur í Hárinu, en múslimarnir dýrka Múhameð sem var ribbaldi.
# # # # # # # # # # # # #
Fór í Blóðbankann í morgun. Þar vantar víst talsvert blóð um þessar mundir, enda allir í sumarfríi. Það er þeim mun verra þar sem þetta er ártíminn þar sem unglingar stunda það að vefja sér og bílunum sínum umhverfis ljósastaura með tilheyrandi útgjöldum fyrir bankastofnunina.
# # # # # # # # # # # # #
Steinunn fer inn á Sankti Jó í fyrramálið í lyfjakúr í annað sinn á stuttum tíma. Hún er draghölt um þessar mundir og svo jafnvægislaus að hún treystir sér varla til að halda á Ólínu milli herbergja. Treysti því að þessi skammtur muni kippa því í liðinn.
# # # # # # # # # # # # #
Ef gula ógeðið hættir ekki að skína svona verður það minn bani. Ég er til í að fallast á að 14-15 gráðu hiti getur verið notalegur á sumrin, en allt umfram það er algjör óþarfi.