Æi.
Sé að Guðmundur Rúnar Svansson skrifar skammargrein á Deigluna vegna greinar minnar um kjarnorkuárásirnar á Hiroshima og Nagasaki. Þar ver hann miklu púðri í að skammast yfir skorti á tilvísunum í heimildir. Sjálfur er hann þó ekki maður í að setja setja tengil á sjálfa greinina mína – heldur kýs að matreiða hana oní lesendur sína með því að klippa út einstakar tilvitnanir. Þannig gera menn einatt þegar þeir hafa vondan málstað að verja.
Ég nenni ekki að fjalla um allt það sem ég hef við þessi skrif Guðmundar Rúnars Svanssonar að athuga, til þess er klukkan alltof margt, en sitthvað má þó tína til.
* Ef marka má Guðmund Rúnar Svansson er hlutverk sagnfræðinga ekki að draga ályktanir eða leita orsakaskýringa. Sagnfræðingur getur þannig ekki sett fram almenna orsakaskýringu (dæmi: ríkisstjórn BNA herjar út úr þinginu gríðarlegar fjárhæðir til þróunar á vopnabúnaði með þeim rökum að hann sé nauðsynlegur til að vinna stríðið – þegar hillir undir að stríðinu ljúki án þess að vopnin dýru séu notuð, er ljóst að hætta er á álitshnekki stjórnvalda), heldur verður hann að finna undirritaða yfirlýsingu forsetans þessa efnis. Líklega hefur Guðmundur Rúnar Svansson hér slegið saman starfsheitunum sagnfræðingur annars vegar og skjalavörður hins vegar.
* Hugmynd Guðmundar Rúnars Svanssonar um tilurð ákvörðunarinnar að varpa kjarnorkusprengjunni á Japan er dásamleg! Hún er í stuttu máli þessi: FDR ákveður að gera kjarnorkusprengju, en segir engum frá því. Hann var heldur ekki búinn að ákveða hvernig ætti að nota hana, heldur bjó hann hana til að gamni sínu eða til vonar og vara. Þegar Truman verður forseti, uppgötvar hann að til er kjarnorkusprengja og verður ákaflega hissa. Hann fær svo skyndilega þá snjöllu hugmynd að geyma ekki bara kjarnorkusprengjuna í kjallara í einhverri herstöð í Bandaríkjunum, heldur kasta henni á Japan til að ljúka stríðinu. Hann rabbar um málið við hina og þessa, en að endingu tekur hann ákvörðunina einn og sjálfur. – íkvörðunin byggðist á því hverju hann trúði í hjarta sínu og þar sem enginn getur sagt til um það hvernig honum var innanbrjósts á sínum tíma, hljótum við að láta karlgarminn njóta vafans.
Ef Guðmundur Rúnar Svansson trúir þessu í raun og veru, þá get ég ekki verið pirraður út í hann. Þetta er nefnilega bara krúttlegt. – Vonandi mun hann aldrei álpast til þess að lesa um mann að nafni James F. Byrnes og þátt hans í kjarnorkuáætluninni og ákvarðanatöku Trumans, það gæti orðið til að eyðileggja þessa dásamlega hrekklausu söguskoðun.
* Guðmundur Rúnar Svansson setur sömuleiðis fram þá kenningu að Bandaríkjamenn hafi í raun ekki verið í stríði við Þýskaland fyrr en eftir innrásina í Normandí 1944 – og þá hafi stríðið í raun verið búið enda Sovétmenn búnir að mala þá. Þetta er afskaplega forvitnileg kenning og gæti haldið nafni hans lengi á lofti, ef honum tækist að færa fyrir henni trúverðug rök.
Þangað til Guðmundi Rúnari Svanssyni tekst að sannfæra heimsbyggðina um þessa byltingarkenndu hugmynd – að Bandaríkjamenn hafi bara tekið þátt í stríðinu í Evrópu fyrir siða sakir, en í raun ekki litið á Hitler sem raunverulegan óvin, heldur bara Japani – þá skulum við halda okkur við hefðbundnari sögutúlkun. Ef við gerumst svo íhaldssöm í hugsun að álíta sem svo að á árinu 1943, ári áður en Bandaríkjamenn tóku þátt í innrásinni í Normandí og á sama tíma og bandarískir hermenn voru að berjast við þýska hermenn t.d. í Afríku – hafi Bandaríkin kosið að líta á Þýskaland Hitlers sem raunverulegan óvin – þá hlýtur að vera eðlilegt að spyrja sig þeirrar spurningar: HVERS VEGNA GERíU BANDARíSK YFIRVÖLD EKKI Ríí FYRIR MÖGULEIKANUM Á Aí BEITA KJARNORKUSPRENGJUM GEGN ÞJÓíVERJUM?
Þessari spurningu má auðvitað svara á margvíslegan hátt og viðfangsefni sagnfræðinga – sem og annarra söguáhugamanna – er að reyna að svara henni. Mitt svar er að Bandaríkjastjórn hafi skipað Japönum sem kynþætti skör neðar en Þjóðverjum. Þannig hafi kynþáttahyggja – frekar en bein hernaðarleg sjónarmið ráðið einna mestu um ákvörðunina. Dæmi um þetta viðhorf má finna í ummælum Trumans um Japani: „When you have to deal with a beast you have to treat him as a beast. It is most regrettable but nevertheless true.“
Guðmundur Rúnar Svansson virðist hins vegar telja að ályktanir af þessu tagi jafngildi sleggjudómum og séu óréttlætanlegar nema fyrir liggi minnisblað frá Truman sjálfum með textanum: „Hvítir menn = góðir. Gulir menn = vondir.“ Þessi áherslumunur okkar veldur mér takmörkuðum áhyggjum.
* Ég ætla sömuleiðis að vona að Guðmundur Rúnar Svansson sé að gera að gamni sínu með neðsta tenglinum í „heimildaskrá“ greinar sinnar. Þar stendur í tilvísunartexta: „Og að lokum Wikipedia um sprengingarnar“, en þegar smellt er á tengilinn kemur upp þessi síða sem fjallar svo sannarlega ekki um sprengingarnar, heldur um kenningu sem ég hélt að sárafáir tækju alvarlega. Sú kenning gengur út á að Japan hafi verið langt komið við smíði kjarnorkusprengju 1945! Þetta hlýtur að vera brandari???