Dagur Eggertsson var ekkert að skafa utan að því í Kastljósinu í kvöld hversu afleitt það væri – og stæði í vegi fyrir hugmyndafræðilegri endurnýjun – þegar framboðslistum væri stillt upp af þröngum hópum í bakherbergjum.
Þetta er aðdáunarverð marxísk sjálfsgagnrýni, þar sem hann er eini borgarfulltrúinn í Reykjavík sem á að öllu leyti sæti sitt að þakka uppstillingu í bakherbergjum.
Hugmyndin um að einhver sé „fulltrúi óháðra“ finnst mér annars alltaf jafn fráleit. Dáldið eins og að vera „konungur lýðveldissinna“ – ekki satt? En Dagur fattar ekki djókinn og gengst kátur við titlinum.
# # # # # # # # # # # # #
Luton fer vel af stað. Fyrst unnum við Crystal Palace úti – svo Southampton heima. Þá er bara að taka Leeds á laugardaginn.
Sé að vinir mínir Færeyingarnir í B36 hafa gert góða ferð til Danmerkur, töpuðu 2:1 gegn Mid-Jylland. Það væri náttúrlega stórkostlegt ef þeir ynnu sigur í seinni leiknum og færu áfram í keppninni!