Enn eru allir fjölmiðlar fullir af þýsku kosningunum, enda virðist stefna í algjöra stjórnarkreppu í landinu. Þessi stjórnarkreppa er kaldhæðnisleg í ljósi þess að þar í landi eru gríðarlega ólýðræðislegar kosningareglur sem fela það í sér að flokkar þurfa að fá mjög hátt hlutfall atkvæða til að fá þingmenn kjörna. Þröskuldur þessi gerir það að verkum að milljónir kjósenda geta lent í því að fá enga fulltrúa á þingi.
Þau rök sem færð hafa verið fram fyrir slíkum þröskuldum (og sem sumir hafa talað fyrir að verði teknir upp hér á landi ef landið yrði gert að einu kjördæmi) eru fyrst og fremst pragmatísk. Á Þýskalandi héldu menn því fram að þröskuldarnir tryggðu að hægt væri að mynda meirihlutastjórnir, en að smáflokkar leiddu til stjórnarkreppu og viðvarandi minnihlutastjórna. Þau rök fara fyrir lítið núna. Líklega væru meiri líkur á að Þjóðverjar gætu myndað starfhæfa ríkisstjórn nú ef enginn hefði verið þröskuldurinn.
Önnur mýta um þýska kosningaþröskuldinn er sú að hann sé afurð fortíðar Þýskalands – að smáflokkakraðak hafi meðal annars komið Hitler til valda. Þetta hefur maður oft heyrt fullyrt og nú síðast skrifar Björn Bjarnason um það á heimasíðu sinni.
Söguáhugamaðurinn Björn hefði þó betur haft fyrir að kynna sér málið aðeins betur áður en hann dró þessa gömlu tuggu fram. Lítum á kosningarnar 1933, þær síðustu áður en Nasistar tóku sér alræðisvald með stuðningi hægrimanna á þýska þinginu.
Fylgi flokkanna var sem hér segir:
Nasistar 43,9%
DNVP (hægrisinnaður samstarfsflokkur nasista) 8%
Jafnaðarmenn 18,3%
Kommúnistar 12,3%
Miðflokkurinn 11,2%
Bæheimski flokkurinn (systurflokkur Miðflokksins) 2,7%
Hinir margumtöluðu smáflokkar voru:
DDP 0,9%
Aðrir 2,7%
Þetta gaf smáflokkum 14 þingmenn af 647.
Á kosningunum í nóvember 1932, sem sömuleiðis voru afar þýðingarmiklar í valdatöku nasista var samanlagt fylgi smáflokka innan við 5% og 25 þingmenn af 584.
1930 voru smáflokkarnir með 20 þingmenn af 577 & 1928 voru þeir 26 af 491 – (þá eru nasistar ekki taldir til smáflokka).
Með öðrum orðum, er útilokað að leita réttlætingar fyrir ólýðræðislegum kröfum um lágmarksfylgi flokka í Þýskalandi í nasískri fortíð landsins. Það stenst enga sögulega skoðun.
# # # # # # # # # # # #
Á kvöld át ég hreindýrshjörtu hjá tengdó. Það er herramannsmatur.
# # # # # # # # # # # #
Luton tapaði fyrir Reading í kvöld og er úr leik í deildarbikarnum. Jæja, við tökum þá bara Uglurnar á föstudaginn í staðinn.