Það voru tveir viðtalsbútar í sjónvarpsfréttunum í gær sem verulega erfitt var að hlusta á – hvor á sinni stöðinni.
Á Stöð 2 var spilað viðtal við Jónínu Ben sem virtist á barmi taugaáfalls. Hún var ekki í nokkru jafnvægi fyrir símaviðtal og margsagði fréttamanninum að hún gæti ekki svarað spurningum hans núna. Samt var þetta spilað. Ekki vegna þess að það bætti neinu við fréttina heldur bara af miskunarleysi – eða vegna þess að fréttamaðurinn sem líklega var búinn að hafa mikið fyrir að ná í Jónínu tímdi ekki að sleppa því að nota efnið.
Á Sjónvarpinu var frétt um sjóskaða. Skúta með tveimur mönnum lenti í hafvillum. Annar fórst en vinur hans bjargaðist. Fréttamaður tók á móti þyrlunni við Borgarspítalann og lét spurningarnar dynja á manninum. Strax í upphafi viðtalsins sagðist hann ekki vilja segja neitt að svo stöddu máli né treysti sér til þess. Samt var haldið áfram að spyrja. – Ég er viss um að íslenskur sjómaður sem væri nýbúinn að sjá eftir félaga sínum í hafið hefði ekki fengið þessa meðferð.
# # # # # # # # # # # # #
Leitin að næsta Loga heldur áfram hér á síðunni. Hægt er að greiða atkvæði í athugasemdakerfinu eða senda mér tölvupóst. Þessi hafa fengið atkvæði:
Freyr Eyjólfsson 2
Kristján Kristjánsson 1
Ómar Ragnarsson 1
Magga Stína 1
Villi naglbítur 1
Gísli Marteinn 1
Broddi Broddason 1
Snorri Már Skúlason 1
Davíð Þór Jónsson 1
Það eru greinilega skiptar skoðanir hjá þjóðinni, enda um mikið hitamál að ræða. Etv. ætti ég að rukka 99,90 kr. fyrir skeytið?