Oft þarf bara einn hlut…

Á kvöld litu gömlu úr Frostaskjólinu í­ heimsókn á Mánagötuna, klyfjuð verkfærum. Markmiðið var að ganga frá ýmsum smáverkefnum sem hafa verið látin sitja á hakanum: negla upp myndir og smáhluti, skrúfa saman barnastól, setja upp reykskynjara, ryðja til mublum o.s.frv. Allt eru þetta smáverkefni sem ég hef ekki haft mig í­ hjálparlaust.

Það er allt annað að sjá í­búðina. Verst hvað maður fær mikla aulatilfinningu yfir að hafa ekki verið búinn að geta þetta fyrir lifandis löngu.

# # # # # # # # # # # # #

Steinunn fór í­ klippingu seinnipartinn hjá gamalli bekkjarsystur sinni að austan. Hún kom aftur sæt og fí­n, sem vænta mátti.

Þessa dagana er Steinunn gjörsamlega að eipa af ofvirkni og eirðarleysi. Það er hliðarverkun af sterakúrnum sem hún er á núna. Raunar veitti ekkert af að hafa okkur þrjú hérna í­ kvöld, svo hún gæti skipað nægilega fyrir…

# # # # # # # # # # # # #

Á hádeginu á fimmtudaginn flyt ég erindi hjá Verkfræðingafélaginu. Erindið er að skrí­ða saman og er núna í­ yfirlestri hjá Skúla Sigurðssyni. Skúli er, auk þess að vera góður vinur, einhver frjóasti og hugmyndarí­kasti fræðimaður sem ég hef kynnst.

Skúli hefur ekki gert mikið af því­ að skrifa stórar bækur, heldur fremur sent frá sér styttri tí­maritsgreinar og flutt fyrirlestra. Fyrir vikið átta margir sig ekki á því­ hversu margt hann hefur fram að færa til í­slenskrar sagnfræði, auk þess sem ýmsir vilja ekki skilja það – þar sem Skúli er ekki maður hinna einföldu og þægilegu skýringa.

Stundum upplifir maður það við lestur bóka eða greina að rekast á eina setningu eða eina málsgrein, sem segir nákvæmlega það sem maður hefur verið að velta fyrir sér lengi en ekki getað komið orðum að. Þessi augnablik geta verið hreinar opinberanir. Ég hef sjaldan upplifað þetta við lestur í­slenskra sagnfræðirita (kemur þó fyrir), en nokkrum sinnum orðið þess aðnjótandi við að lesa efni frá Skúla.

Á handritinu sem ég var að lesa sí­ðast, er svona setningu að finna:

„The standard view in Iceland continues to be that electric power = hydropower. Accordingly, technology is about the conquest of natural resources, not production and consumption. It is insufficently recognized that modern technology is networked and spatially insatiable, constitutive of modern cityscapes, and that it is gendered.“

EINMITT. Nú hef ég lesið eða rennt lauslega yfir nánast allt það sem skrifað hefur verið um í­slenska orkusögu sí­ðustu fimmtí­u árin – og það er AKKÚRATT þetta sem er vandamálið. Á öllum þessum bókum snýst orkusagan um fossa sem þurfti að virkja, en ekki fólk sem langaði í­ í­sskáp – eða bónda sem keypti sér heyþurrkara – eða bandarí­ska stórmarkaðakeðju sem heimtaði að fiskverkandinn á Íslandi fengi sér öflugari frystigeymslu.

Við GETUM sagt í­slenska orkusögu án þess að minnast einu orði á Einar Ben, án þess að ví­kja að Vatnalögunum eða fjalla um fossana í­ Soginu (þótt vissulega væri það ekki æskilegt markmið í­ sjálfu sér). En við getum hins vegar EKKI sagt þá sögu án þess að geta um vinnukonuskort í­ Reykjaví­k millistrí­ðsáranna, matarvenjur fólks sem vildi sjóða sí­na ýsu í­ hádeginu eða fjalla um herinn á Keflaví­kurflugvelli sem kynnti amerí­ska í­sskápa sem minntu helst á kjarnorkubyrgi og eyddu orku eftir því­ – amk. ekki ef við viljum að það verði vit í­ þeirri sögu.

Saga tæknikerfa 20. aldar er saga neyslu – ekki hráefna. Hvers vegna er svona erfitt að skilja það?