Það er heljarstór gámur nokkrum húsum neðar í Mánagötunni, fullur af steypubrotum og spýtnabraki. Sé að þar hafa menn m.a. lent í að ryðja út forskalaðri eldhúsinnréttingu líkt og þeirri sem ég þurfti að brjóta niður hjá okkur í sumar. Það var ljóta helvítið.
Ræddi við nágranna um framkvæmdirnar og hann upplýsti að sami aðili hafi keypt kjallarann og tvær efri hæðirnar. Hæðunum tveimur verði svo breytt í eina íbúð, þar sem neðri hæðin fari undir stofur og eldhús en sú efri í svefnherbergi og flennistórt bað.
Þetta er ekki fyrsta húsið í Norðurmýrinni norðan Flókagötu sem þetta er gert við. Annað hús neðar í götunni fékk slíka meðhöndlun á dögunum og ég hef séð fleiri dæmi um stórtækar framkvæmdir á fleiri en einni hæð í húsum í hverfinu.
Ætli það megi ekki reikna með að kostnaður við kaup á tveimur hæðum í svona húsi, niðurrif og framkvæmdir liggi ekki nærri 50 milljónum miðað við verðlag í dag. Það er á við dálaglegt einbýlishús í Grafarvoginum. Ætli það hefði ekki þurft að segja mönnum það tvisvar fyrir einhverjum árum að fólk með slík auraráð kysi sér búsetu í Norðurmýrinni…
# # # # # # # # # # # # # #
Luton og Úlfarnir leika í beinni útsendingu á Sky á föstudagskvöldið. Við erum bara alltaf í sjónvarpinu!
# # # # # # # # # # # # # #
Fréttaflutningurinn af heilsu Sharons er orðinn hreinn brandari.
Auðvitað var eðlilegt að fjölmiðlar veltu sér upp úr því þegar karlinn fékk stóra heilablóðfallið – enda maðurinn forsætisráðherra í veigamiklu ríki. Þá strax varð ljóst að hann ætti aldrei aftur kost á endurkomu í pólitík OG ÞAí VORU FRÉTTIRNAR. Þegar þær upplýsingar lágu fyrir, áttu menn að hætta að velta sér upp úr ástandi karlsins og spá þess í stað í framhaldinu – mögulegum arftökum.
Það hvort Sharon tórir í viku eða nær einhverjum bata og lifir á hjúkrunarhæli í áratug í viðbót skiptir hins vegar engu máli pólitískt. ísraelsk stjórnmál eru sem betur fer á hærra plani en Vatíkanið að þessu leyti – að algjör hjarta- og heiladauði er ekki forsenda þess að menn fái að hætta störfum.
Næstu frétt, takk!