Konan mín skilur mig ekki.
Að mati hennar er til eitt stórt mengi sem heitir kaffi. Þessu kaffi má skipta í gott kaffi og vont kaffi. Gott kaffi er gert úr fínum baunum, helst nýmöluðum og hitað eftir kúnstarinnar reglum og með viðeigandi græjum. Vont kaffi sé úr ódýrum kaffimulningi, illa hitað og jafnvel staðið eða soðið. Slíkt kaffi fær maður t.d. í bönkum og á ótrúlega mörgum vinnustöðum. Á huga Steinunnar er fráleitt að drekka vont kaffi ef gott kaffi er í boði.
Þetta viðhorf byggist á misskilningi. Gott kaffi og vont kaffi eru tvö ólík fyrirbæri. Vissulega er gott kaffi um flest betra en vont kaffi, en eiginleikar þessara tveggja fyrirbæra eru gjörólíkir. Stundum – og raunar býsna oft – er vont kaffi betra en gott kaffi.
Á Mánagötunni eru tvær leiðir notaðar til að blanda kaffi. Það er hægt að sjóða vatn í potti og útbúa svo kaffið í pressukönnu – en einnig er hægt að hella upp á með skran-kaffikönnu sem lætur vatnið vætla langt undir suðumarki í gegnum korginn. Steinunn hellir aldrei uppá með þessum hætti, enda skilur hún ekki tilganginn í að drekka vonda kaffið frekar en það góða.
Gallinn við góða kaffið er hins vegar sá að það drekkur maður úr hálfgerðum fingurbjörgum, helst ekki nema einn eða í mesta lagi tvo bolla og við minnsta gleypigang fyllast vit manns af korgi. Þannig er hægt að lepja kaffi á sunnudögum, en dagsdaglega vill maður drekka kaffi eins og bjór – úr stórum krúsum, nógu mörgum og með vænum sopum. Þessum þörfum geta fínu espressó-vélarnar ekki fullnægt, þótt þær kosti álíka mikið og bíllinn minn.
Ég er farinn að hella uppá…
# # # # # # # # # # # #
Wolves mætir Luton í kvöld á Sky. íhugasamir geta hitt mig í Glæsibæ yfir leiknum.