Fótboltasíðan í vefútgáfu The Guardian er sú besta í bransanum. Einn skemmtilegasti liðurinn á henni er „The Knowlegde“ – sem er kjúríosítets-dálkur. Fólk sendir inn spurningar og umsjónarmennirnir reyna að svara. Ég notaðist mikið við þennan dálk til að fá innblástur fyrir fótboltapistlana mína í DV á sínum tíma og nokkrar spurningar í Spark-spilinu eru fengnar þaðan.
Um daginn var fjallað um vináttu tónlistarmannsins Morrissey og framherja QPR – í framhaldinu var kallað eftir ábendingum um knattspyrnumenn sem ættu vini í tónlistarbrasanum.
Innblásinn af þjóðerniskennd sendi ég línu um að Eiður Smári væri í góðu vinfengi við hljómsveitina Ég – og að hann hefði m.a.s. fengið lag í höfuðið á sér.
Viti menn. Umsjónarmennirnir hentu þetta á lofti og nú má lesa um hina innmúruðu vináttu í boltanördisma-horni The Guardian…
# # # # # # # # # # # # #
Eftir að hafa skoðað þvottavélar á netinu í allt kvöld, er ég komin inn á að kaupa AEG-vél í Bræðrunum Ormsson. Gaman væri þó að vita hver í ósköpunum þarf meira en 20 mismunandi prógröm fyrir þvottavélina sína? Nú sé ég alfarið um að setja í þvottavél á Mánagötunni, þar sem Steinunn á bágt með að bera þvott niður stigann – held að ég hafi ekki notað meira en 5-6 prógröm á ferlinum…
# # # # # # # # # # # # #
Á morgun er annað keppniskvöld í GB. Þar sem við erum búin að bjóða Jóni Knúti í kvöldverð, sé ég þó ekki fram á að hlusta.
Borghyltingar mæta VMA, en síðarnefndi skólinn hefur verið úti á þekju mörg undanfarin ár. Held að Borgó vinni auðveldlega, þrátt fyrir að stilla fram glænýju liði. MR-ingar mæta sömuleiðis FB og þar verður ekki að sökum að spyrja. Tuttugu stiga munur ætti ekki að koma á óvart.
Þriðja og síðasta keppnin er viðureign Kvennaskólans og Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum. Bæði lið hafa verið fallbyssufóður undanfarin ár. Fara verður aftur til 2001 til að finna síðasta skipti sem Kvennó vann keppni og enn lengra með Eyjamenn. Hallast þó frekar að Kvennaskólasigri, þó ekki sé nema í ljósi stærðarmunarins á skólunum tveimur.
# # # # # # # # # # # # #
Á þessum rituðum orðum sé ég að á Sirkus eru tveir menn að löðrunga hvor annan með borðtennisspöðum. Inn á milli er skotið inn myndum að keflvískum stelpum á nærbuxunum. Hvur djöfullinn er eiginlega í gangi?