Mér er búið að vera illt í kviðnum í tvo daga, nokkurn veginn á þeim stað sem gagnfræðaskólalíffræðin kenndi mér að væri heimkynni botnlangans. Þegar við bætast allar læknamyndirnar í sjónvarpinu um fólk sem fær rauðagallssýkingar eða hvað þetta nú heitir alltsaman og fer að spýja blóði um leið og spítalann er komið, er ekki laust við að maður verði dálítið smeykur.
Á dag var ég kominn á fremsta hlunn með að panta mér tíma hjá lækni. Hið raunverulega áhyggjuefni var þó hvort ég gæti spilað fótbolta í kvöld. Þriðjudagsboltinn er nefnilega ein af helgistundum vikunnar.
Ég reyndist leikfær og þarf þá ekki að hugsa um þetta skringilega líffæri næstu vikuna – eða í það minnsta ekki óttast að það ræni mig fótboltasparki.
Og þetta reyndist svo sannarlega ekki tími sem ég hefði viljað missa af! Á þau ellefu ár sem þessi hópur (í mismunandi myndum þó) hefur spilað saman, hefur það kannski gerst 2-3 að leikir færu 10:0. Það gerðist í kvöld. Ég, Torfi, Hrafnkell, Kolbeinn og Freyr vorum saman í liði (sagnfróðu vinstri græningjarnir) og steinlágum í fyrsta leik, 10:3. Eitthvað var stungið upp á að skipta aftur, en þessara ófara varð að hefna og viðsnúningurinn var algjör.
Á lokaleiknum hringdi bjallan rétt eftir að okkur tókst að jafna 7:7.
Er ég snáðinn í snjónum að monta mig af sigri í fitubollubolta á bloggsíðunni minni? Það getur vel verið – mér er alveg sama.
# # # # # # # # # # # # #
Á dag fékk Minjasafnið gefins háfjallasól. Þar með á safnið þrjá slíka gripi, hvern öðrum flottari. Gefandinn uppástendur að hægt sé að stinga tækinu í samband og það svínvirki. Næst þegar ég finn þörf fyrir að anda að mér ósoni læt ég kannski reyna á það…
Háfjallasólir eru svo skemmtilegar að ég myndi alveg þiggja fleiri.