Pestarbælið á Mánagötunni er meða rólegasta móti um þessa helgi. Ólína er skárri í dag en í gær, en mun væntanlega rjúka aftur upp í hita með kvöldinu.
Steinunn er með hitavellu, en hún fer í skrall við nokkrar kommur – svo hún verður tæplega til stórræðanna í dag eða á morgun.
Frekar en að horfa á skíðagöngu skelltum við Kínahverfinu eftir Polanski í tækið. Það er, ásamt Þriðja manninum, uppáhaldsmyndin mín. Það eru fáar myndir sem ég hef séð oftar.
Öfugt við flesta unnendur Kínahverfisins, fannst mér framhaldsmyndin – The Two Jakes – bara nokkuð góð. Hef reyndar ekki séð hana lengi.
Rætt hafði verið um að gera trílógíu og gott ef það var ekki til handrit að þriðju myndinni, en dræmar viðtökur við The Two Jakes gerðu þau óform að engu.
# # # # # # # # # # # # #
Er að undirbúa vísindasögutíma morgundagsins. Reikna með að fjalla nokkuð um fuglaflensuna og hvað umfjöllun um hana segir okkur um vísindasamfélag samtímans og stöðu þess.
# # # # # # # # # # # # #
Góndi á Evróvisíon-lögin sem sndurtekin voru í gær í afar skringilegum sjónvarpsþætti. Kortéri eftir þáttinn reyndi ég að rifja upp laglínurnar í huganum. Það var gjörsamlega útilokað. Ég gat sönglað viðlagið við lag Sylvíu Nóttar (æi – ekki fara í gegnum fallbeygingarumræðuna núna) og breimið í stráknum sem lítur út eins og Norðmaður. Hin lögin voru gjörsamlega óeftirminnileg.
Mamma lýsti annars lagi Sylvíu Nóttar nokkuð vel. Að hennar mati er það blanda af Evróvisíonlagi Páls Óskars annars vegar en Sókrates eftir Sverri Stormsker hins vegar. Held að þetta sé fjári góð lýsing.