Krílríkur, hundur Steinríks í ístríks-bókunum, varð alltaf miður sín og fór að hágráta þegar hann sá tré sem rifin höfðu verið upp með rótum. Þessi ástúð hans á trjám var meira að segja stórt atriði í einni ístríks-bókinni, ístríkur í Arnarnesinu – sem reyndar hefur ekki komið út á íslensku.
Ég er ekki alveg jafn viðkvæmur þegar kemur að því að sjá tré á hliðinni, en það var samt skringileg tilfinning að mæta í vinnuna og sjá háu grenitrén sem staðið hafa norðan við Minjasafnið liggja í einni hrúgu.
Trén þurftu að víkja vegna framkvæmdanna við hús Fornbílakúbbs Íslands sem nú eru loksins hafnar hér við hliðina á safninu. Ég gleðst við tilhugsunina að geta fylgst með gangi mála út um gluggann og séð eitthvað nýtt á hverjum degi. Frá því að ég var smápjakkur hef ég fátt vitað skemmtilegra en að fylgjast með húsum í byggingu. (Gerir það mig að vonum Vinstri græningja?)
Þeir eru hins vegar ekki öfundsverðir starfsmennirnir við uppgröftinn. Þar sem húsnæði Minjasafnsins var áður aðveitustöð, eru líklega fáir skikar á landinu með viðlíka fjölda af strengjum í jörðu. Eins og það sé ekki nóg, var braggahverfi á svæðinu á stríðsárunum með tilheyrandi lögnum, sem enginn veit hvar er að finna.
Annað hvort munu mennirnir þurfa að handpjakka stóran hluta af verkinu með skóflum eða þeir taka sénsinn og vonast til þess að klippa ekki út stóra hluta Reykjavíkur.
Búið ykkur undir reglulegar framvinduskýrslur á þessari síðu næstu mánuðina.
# # # # # # # # # # # # #
Luton missti unnin leik niður í 3:3 jafntefli gegn Cardiff í gærkvöld. Fúlt.