Konudegi klúðrað?

Konudagurinn er að verða búinn. Ekki keypti ég nein blóm handa Steinunni. Ekki færði ég henni morgunmat í­ rúmið né bauð henni út að borða – eins og óteljandi veitingastaðaauglýsingar sí­ðustu daga höfðu þó hvatt mig til að gera.

Skýringin er svo sem ekki bara sú að ég sé órómantí­skur durtur. Það hefur einfaldlega verið fullt starf sí­ðustu daga að rí­fa heimilið upp úr flensunni. Sjálfur virðist ég hafa sloppið við flensuna (7,9,13) en Ólí­na er búin að vera með hita í­ tólf daga og Steinunn í­ meira en viku. Barnið hefur hrí­ðhorast og er nú bara með eina undirhöku í­ stað þriggja áður. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að giska á hversu mikið af þessu þyngdartapi var í­ formi hors, sem lekið hefur í­ strí­ðum straumum úr litlu nösunum.

Nú er landið sem betur fer farið að rí­sa. Hitavellan ætti að hverfa á morgun eða hinn og þær mæðgur í­ kjölfarið að geta hætt sér út fyrir hússins dyr. Það er lí­ka eins gott, enda stendur eitt og annað til í­ næstu viku. Má þar nefna Túskildingsóperuna og út að éta á Snæðingi & glaðværð.

En úr því­ að maður var sá rati að klúðra því­ að kaupa blómvönd fyrir konuna sí­na á þessum degi – er ekki úr vegi að reyna að bæta fyrir það með bloggi:

Steinunn, í­ vor – helst ekki seinna en í­ maí­ – þá förum við suður með sjó og löbbum út að fjárréttinni sem við höfum ætlað að heimsækja í­ meira en fjögur ár. Ef nauðsyn krefur þá skal ég bera þig á bakinu, því­ við skulum komast þangað. Ég lofa því­. Það er sí­ðbúna konudagsgjöfin mí­n.

# # # # # # # # # # # # #

Besta viskýið á Mánagötunni um þessar mundir er flaska af tí­u ára gömlum Bruichladdich. Á viskýferðinni miklu til Islay 2004, var dagurinn í­ Bruicladdich-brugghúsinu einna eftirminnilegastur. Þar var ósvikin útihátí­ð í­ verksmiðjuportinu með endalausum skemmtiatriðum í­ steikjandi sól og hita. Þarna rann Islay-bjór í­ strí­ðum straumum og með honum renndum við niður nýfönguðum ostrum sem opnaðar voru fyrir framan okkur. Greinilegt var að heimamenn töldu best að sporðrenna ostrunum með öllum vökvanum úr skelinni – en okkur Steinunni fannst það eins og að drekka sjó og helltum því­ mesta vökvanum af.

Á torginu gekk svo á með sí­felldum sekkjapí­puleik, hópdönsum og kvæðasöng. Til að flýja undan stingandi sólinni var hægt að svipast um á handverksmarkaði og í­ minjagripaverslun brugghússins. Bruichladdich hafði ekki verið efst á vinsældarlista í­slenska hópsins fyrir heimsóknina, en vann sér inn mörg prik þennan yndislega dag.

Spurt er: Fæst Bruichladdich í­ Rí­kinu? Svar: Nei!

Spurt er: Hvers vegna ekki? Svar: Því­ þar er helst bara selt viský sem er drasl.
# # # # # # # # # # # # #

Um helgina afrekuðum við að horfa á tvær kvikmyndir af myndbandi. Annars vegar The Two Jakes, sem var jafngóð og mig minnti. Hins vegar Gus van Sant myndina Elephant – sem mér fannst tilgangslaus, langdregin og óþægleg á að horfa. Nema að tilgangurinn hafi verið að gera langdregna og óþægilega mynd – hafi sú verið raunin, þá náðist það markmið fullkomlega.

# # # # # # # # # # # # #

Á föstudagskvöldið leit ég á Ölver á seinni hálfleikinn af viðureign Luton og Reading. Luton vann frægan 3:2 sigur. Þessum sigri hefði ég fagnað mun innilegar, ef ég hefði ekki verið eini Luton-maðurinn í­ fullu herbergi af Reading-mönnum. Þar var um að ræða fjölskyldu ívars Ingimarssonar, sem var ekki skemmt.

Með sigrinum tókst Luton að svipta Reading færinu á að slá meira en hiundrað ára gamalt met Liverpool – leikir án taps í­ næstefstu deild. Því­ miður færir það okkur ekkert nær sæti í­ umspilinu, en sú von má heita úr sögunni.

# # # # # # # # # # # # #

Ég stend frammi fyrir vali. Á ég að taka að mér verkefni, sem er það sem mig hefur lengi langað til að gera – þótt tí­minn og aðstæðurnar séu kannski ekki alveg þær sem ég hefði helst kosið? Þetta verkefni er bæði spennandi og krefjandi – en það felur jafnframt í­ sér að ég verð að færa fórnir, draga saman seglin á öðrum sviðum, t.d. í­ félagsmálavafstri.

Nú eru góð ráð dýr.