Fór í kvöld í bað eins og fínn maður, eftir að konurnar á heimilinu voru gengnar til náða. Kvenpersónurnar eru reyndar með flesta móti núna, því auk Steinunnar og Ólínu er öðlingurinn Bryndís gestur á Mánagötunni, en hún er milli íbúða.
Þetta var heitt bað. Mjög heitt. Og til að fullkomna nautnina greip ég með mér einn bjór (Egils Premium, sem er langbesti íslenski bjórinn og í talsverðu uppáhaldi hjá mér nú um stundir) og teiknimyndasögu.
Teiknimyndasagan sem varð fyrir valinu var Tinni og Pikkarónarnir, síðasta bókin í Tinna-seríunni. (Sem minnir mig á að einhver góður maður ætti að gefa út fyrstu Tinna-bókina, Tinni í Sovétríkjunum á Íslensku.) Almennt séð hefur bókin um Pikkarónana ekki fengið góð eftirmæli og verður seint talin í hópi bestu Tinna-bókanna. Mér finnst hún þó alls ekki alslæm. Af þessu tilefni ætla ég að efna til skoðanakönnunar meðal lesenda þess bloggs, hverja þeir telji verstu Tinna-bókina. Leynivopnið fær mitt atkvæði – (kvikmyndabókin telst ekki með).
Að sjálfsögðu tekur sig ekki að spyrja um bestu Tinna-bókina. Allir vita að það eru Vindlar Faraós.
# # # # # # # # # # # # #
Staðið verður fyrir stjörnuskoðun á Minjasafninu annað kvöld. Það þýðir að ég mun væntanlega missa af GB-keppni MR og MA. Ég hef áður spáð því að MR muni vinna vandræðalítið. Engu að síður finnst mér það synd að þessi sterku lið mætist svona snemma, enda bæði í hópi fjögurra sterkustu liðanna.
Eina ferðina enn er Sjónvarpið að klúðra því að gera nægilega mikið úr þessu vinsæla efni sínu. Stöð 2 býður upp á Meistarann á fimmtudagskvöldum. Þar er haldið úti sérstakri vefíðu með bloggfærslum Loga Bergmanns og fyrir hvern þátt eru gerðar auglýsingar sem miða að því að auka spennuna fyrir viðkomandi viðureign. Sjónvarpið hirðir ekki einu sinni um að senda myndir af liðum og starfsfólki keppninnar til að birta á dagskrársíðum dagblaðanna.
Hvers vegna notar RÚV ekki það afl sem felst í því að reka saman stærstu sjónvarpsstöð landsins og tvær af þremur vinsælustu útvarpsstöðvunum? Af hverju er ekki fastur liður fyrir hverja GB-keppni að liðin mæti í spjall eða sprell hjá Frey Eyjólfssyni og félögum á Rás 2 eða í morgunútvarpið? Hvers vegna eru GB-keppnir ekki endurteknar – annað hvort um helgar eða í lok dagskrár í miðri viku. – Fyrra árið mitt sem dómari í GB stakk ég upp á að keppnirnar yrðu endursýndar. Hugmyndin þótti framúrstefnuleg og frábær, en mér var jafnframt gefið til kynna að innan RÚV tæki það 4-5 ár að hrinda góðum hugmyndum í framkvæmd. Kannski dregur til tíðinda 2008?
# # # # # # # # # # # # #
Gíður sigur FRAMara í handboltanum í kvöld. Helv. Haukarnir verða ekki stöðvaðir svo glatt. Ég hafði bundið vonir við að Haukar ynnu Stjörnuna í bikarnum en myndu svo tapa í deildinni í næstu umferð – en líklega verður þessu þveröfugt farið úr þessu…
# # # # # # # # # # # # #
Á dag komst ég að því að íþróttasvæði Víkings í Mörkinni var upphaflega (um 1967) úthlutað íR. Fyrst eftir að íR afsalaði sér svæðinu og fluttist í Mjóddina komst skriður á að flytja Víkinga niður í dalinn.
Það sem er sláandi við þetta er vitaskuld sú staðreynd að þegar íR fékk Fossvogsdalinn, var Víkingur með félagssvæði við Hæðargarð. Ef horft er á svæðið á korti sést að Víkingur og íR hefðu verið á sömu þúfunni Örskömmu síðar sótti enn eitt Reykjavíkurfélagið um að fá félagsaðstöðu í Sogamýrinni – steinsnar frá – en fékk ekki. Ég yrði steinhissa ef nokkur maður gæti nefnt þetta Reykjavíkurfélag.