Egill Helgason hnýtir í nafnleysingjann sem skellti bréfum Jónínu Ben á netið og leggur út af gamalli Sovét-goðsögn. Þar segir:
Eitt af átrúnaðargoðum Sovétríkjanna gömlu var Pavlik Morozov, lítill drengur, Komsomol-liði, sem klagaði pabba sinn til lögreglunnar vegna þess að þau höfðu falið korn – sem bændurnir máttu ekki halda eftir. Pavlik litli var fyrir vikið barinn til bana af íbúum þorpsins þar sem hann átti heima – en siðferðið í ríkinu var svo sérstætt að Pavel (svo!) var gerður að fyrirmynd ungmenna frá Leníngrad austur til Síberíu. Það voru reistar af honum styttur, af honum héngu myndir í æskulýðsheimilum, sumarbúðir voru nefndar í höfuðið á honum.
Eins og með allar svona sögur, verða þær flóknari þegar farið er að rýna betur í þær. Opinbera söguskýringin á Sovéttímanum var ekki ólík því sem Egill lýsir, nema það voru ættingjar drengsins sem drápu hann (og bróður hans) en ekki óskilgreindur múgur bæjarbúa – þá voru sakagiftir föðursins sagðar skjalafals. Ætli það hafi ekki hljómað háskalegar en að hamstra korni.
Sovésk stjórnvöld bjuggu til sína helgimynd af Pavlik og drógu ekki af sér í lýsingum á því hversu efnilegur piltur hann hefði verið. Andstæðingar stjórnarinnar hrökkluðust sömuleiðis ofaní skotgrafirnar. Sagnfræðingar úr þeirra röðum lögðu kapp á að afbyggja alla þætti sögunnar. Þannig drógu þeir upp mynd af Pavlik sem litlum, ljótum, heimskum og ólæsum. (Eins og það breyti neinu um eðli þess verknaðar að framselja föður sinn – hvort viðkomandi sé horaður eða pattaralegur?)
Hjá þessum endurskoðunarsinnum varð það mikið mál að sýna fram á að Pavlik hafi ekki verið í Komsomol, einhverjir drógu það fram að hann hefði í raun ekki kært pabba sinn til lögreglunnar heldur kennarans síns – sem aftur hafi komið málinu á framfæri. Þessi náungi gekk meira að segja svo langt að gefa í skyn að Pavlik hefði verið drepinn af leyniþjónustunni en ekki ættingjum sínum.
Með öðrum orðum: á sama hátt og sovésk stjórnvöld reyndu að búa til kommúníska hetjusögu úr dauða Pavliks, þá reyndu andstæðingarnir að skapa and-kommúníska sögu úr þessu sama máli.
Á síðustu árum hafa stórsöguskýringar heldur verið á undanhaldi í sögunni. Nýjustu skrif um Pavliks-málið taka mið af því. Þar er spurningin um hver sé góður kommúnisti og hver vondur lögð til hliðar og þess í stað fjallað um málið sem fjölskylduharmleik.
Sú útgáfa sögunnar leggur áherslu á þátt móður Pavliks, sem lenti í óhamingjusömu hjónabandi og erjum við fjölskyldu eiginmanns síns, sem taldi hana ekki af nógu góðum ættum. Faðirinn brást sem fyrirvinna, en lagðist í kvennafar og er klögumálið talið runnið undan rifjum hinnar sviknu eiginkonu í hefndarskyni. Sjá t.d. þessa umfjöllun.
Líklega verða ekki margar styttur reistar af Pavlik úr þessu – en hér er augljóslega komið stöff í dramatíska Hollywood-mynd.
# # # # # # # # # # # # #
Það þarf reyndar ekki að fara 75 ár aftur í tímann til að finna áhugaverð dæmi um sögutúlkanir.
Á Mogganum í dag er sagt frá Fiðluballi MR-inga. Þar segir:
Mikið var um dýrðir í Iðnó við Tjarnarbakkann í gærkvöldi þegar útskriftarnemendur Menntaskólans í Reykjavík héldu sitt árlega fiðluball. Stúlkur í síðkjólum og piltar í kjólfötum dönsuðu um salinn við undirleik strengjakvartetts og skein gleðin úr hverju andliti. Upphaf ballsins er rakið til 19. aldar.
Jahá. Upphaf ballsins er rakið til 19. aldar.
Jú, það má segja að upphafsmennirnir hafi verið einhverskonar 19.aldarmenn í hugsun – dugar það?
Fyrsta fiðluballið var haldið á sjöunda áratugnum og átti að vera einhvers konar andóf gegn hippamenningunni eða 68-kynslóðarkúltúrnum. Sr. Geir Waage var víst einn af upphafsmönnunum. Þetta ball var haldið aðeins einu sinni.
írið 1992 endurvakti Dagur B. Eggertsson fiðluballið – sem aldrei skyldi verið hafa.
Fimmtán árum síðar halda börnin í MR að dansleikurinn þeirra byggist á aldagamalli hefð – en staðreyndin er sú að Spaugstofan er lífseigara fyrirbæri en Fiðluballið. Labbakútar!