Ég rakst á liðsmenn úr GB-liðum MH og MS í Útvarpshúsinu í dag, þar sem ég var að plögga aðgerðirnar á Ingólfstorgi á laugardaginn kl. 15. Þeir skömmuðu mig fyrir að blogga ekki nóg um GB og létu mig lofa að skrifa færslu um keppni kvöldsins. Við það verð ég að standa:
MS-ingar áttu ekki góðan dag gegn Hamrahlíð. MH er hins vegar með hörkulið. Vona að þau vinni í ár og þar með verði stelpa í sigurliði í GB í fyrsta sinn í sögunni. Fyrst þarf liðið hins vegar að leggja Akureyringa, sem eru viðlíka sterkir. Spái MA sigri ef keppt verður fyrir norðan en MH ef viðureignin verður í borginni (já, heimavöllur getur skipt máli í GB).
Verslingar voru heppnir með drátt. Þeir eiga að vinna Borgarholt án mikilla vandræða. Ef ég hefði átt að styrkleikaraða liðunum í keppninni eftir fyrstu umferðina hefði ég sett Versló í 5.-6. sæti – en sömu sögu var að segja fyrir tveimur árum þegar Verslingar fóru alla leið. Þá uxu þeir milli umferða. Þeir eru líka lúsiðnir og fá hámarksárangur út úr sínum mannskap. Ekki verða hissa þótt Versló vinni MA í úrslitum – slík úrslit væru nánast endurtekning á því sem gerðist fyrir tveimur árum þegar Borghyltingar unnu MR og töldu að björninn væri unnin, til þess eins að tapa fyrir Verslingum…
Ein ráðlegging til dómarans að lokum:
Ekki byrja spurningar, sérstaklega ekki vísbendingaspurningar, á fæðingarstað eða -ári þess sem um er spurt. Öll sterku liðin í GB hafa í sínum fórum langa lista með fæðingar- og dánarárum frægs fólks og það er því ekkert afrek hjá þeim að þekkja menn á slíkum vísbendingum.
Þess utan rýrir það spurninguna að þrengja hana strax í byrjun í tíma og rúmi. Betra er að semja spurninguna þannig að í byrjun sé öll mannkynssagan eða Íslandssagan undir – en að svo þrengist hringurinn. Eftir að MH-ingarnir svöruðu Kjarvals-spurningunni í kvöld var keppnin dauð.