Páskarnir eru tími leiðinlegra sjónvarpsmynda með óljósa Biblíulega tengingu. Sömuleiðis eru þeir tími splatterfrétta af x-mörgum óðum Filipseyingum sem krossfesta sig til að minnast písla Krists. Aldrei hef ég skilið almennilega hvernig þeir ná að negla í gegnum seinni höndina.
Almennt séð eru páskarnir frekar fúl hátíð, nema fyrir reykvíska skíðamenn – en yfirleitt eru páskarnir hluti af þessum tveimur vikum á árinu þar sem hægt er að renna sér í Bláfjöllum. Sjálfur steig ég síðast á skíði um tíu ára aldurinn. Skíðasport er skítasport – það hef ég alltaf sagt. (Engu að síður held ég því alltaf á lofti að Steinunn hafi keppt á skíðum fyrir FRAM í gamla daga, svo hún er tæknilega séð FRAMari.)
Nema hvað, nú er páskunum bjargað. Á laugardaginn kemur verður nefnilega efnt til FRIíARPíPUNNAR, spurningakeppni SHA í Friðarhúsi. Hún hefst kl. 16. Allir velkomnir – keppt með hefðbundnu pöbba-kviss fyrirkomulagi, bókaverðlaun í boði.
Þar mæta allir góðir menn.
# # # # # # # # # # # # #
Heimsóttum Ragga Kristins og Brynju seinnipartinn. Inga litla er að verða fimm mánaða og er óskaplega lítil. Einhvern veginn var heilinn búinn að blokkera á allar minningar frá þeim tíma þegar Ólína var svona lítil og þurfti að halda á henni meira eða minna allan sólarhringinn.
Núna er Ólína nánast sjálfala. Það kom í ljós í morgun þegar ég lá hálfdottandi í sófanum í stofunni og hún læddist inn í eldhús þar sem hún komst í ruslafötuna, velti henni um koll og gúffaði í sig kaffikorgi. Ætli það sé skaðlegt að borða kaffikorg eða telst það bara góð upphitun fyrir að éta sand á leikskólanum?
# # # # # # # # # # # # #
Steinunn er búin að tryggja að maímánuður verður ekki átakalaus.