Á kvöld var fyrsti fundurinn í stjórn Friðarhússins eftir aðalfundinn á laugardaginn var. Nýja stjórnin er mjög vel mönnuð og hellir sér nú út í að safna hálfri milljón fyrir miðjan júní til að klára síðustu skammtímaskuldina. Eftir þann tíma verða afborganir og rekstur í föstum skorðum. Við erum 500 þúsund kalli frá okkar björtustu vonum!
Það var góð tilfinning að líta á klukkuna um átta leytið, vitandi að ég þyrfti ekki að fara á fund. Sem betur fer höfum við á það mörgu fólki að skipa að ekki þurfa sömu einstaklingar að sitja í miðnefnd SHA og í Friðarhúsinu, nema Þórður Sveins. sem er fulltrúi samtakanna og Siggi Flosa sem er varamaður og setur nýjan gjaldkera inn í djobbið.
Síðustu árin hef ég frekar vanist því að bæta á mig stjórnarsetum en að koma mér út úr þeim. Þetta er því ánægjuleg tilbreyting.
Ef Steinunn sigrar í formannskjörinu í MS-félaginu á laugardaginn er ljóst að ég þarf að draga saman seglin í félagsmálavafstri til að mæta auknu álagi á hana. Fari kosningarnar á hinn veginn – eins og allt eins getur gerst – breytast hins vegar allar forsendur. Steinunni yrði svo sem ekki skotaskuld að finna sér önnur viðfangsefni.
# # # # # # # # # # # # #
The Killing Moon með Echo &TB er æðislegt lag. Flutningurinn á því í Höllinni á laugardaginn var frábær – hrárri og flottari en á Ocean Rain.
Fýlupúkinn sem skrifaði nöturlega um frammistöðu Echo í Fréttablaðið fær mörg mínusstig í kladdann.
# # # # # # # # # # # # #
Ég trúi því ekki að Tottenham sé í alvörunni að biðja um endurtekinn leik á grundvelli matareitrunarinnar. Það er nú harla aumt.
Tekur Arsenal ekki bara Meistaradeildina og gerir þetta ergelsi óþarft?
# # # # # # # # # # # # #
Á morgun kemur nýr sumarstarfsmaður Minjasafnsins til starfa. Ég verð með einn og hálfan starfsmann í sumar, enda með fullt sumarleyfi og mánaðar fæðingarorlof í sarpinum. Sverrir Guðmundsson verður hálfi starfsmaðurinn, enda fer megnið af sumrinu hjá honum í bakpokaferð um Suður-Ameríku.
Það er alltaf mikil vítamínssprauta á safninu þegar sumarmennirnir mæta. Sannast sagna er vorið ekki mikill framkvæmdatími hjá okkur og við orðnir hundleiðir á að kenna skólahópum. Með sumarmönnunum telst sumarið hins vegar formlega byrjað og þá gerast hlutirnir í dalnum.
Hvað er á dagskránni í sumar? Jú, útrýma síðustu gömlu veggtextunum – setja upp horn með ritvélum og reiknivélum – semja sögulega texta sem miðlað verður á nýstárlegan hátt – og jú, kannski búa til blað. Á Rafheimum ætla ég að leyfa Sverri að stjörnufræðinördast eitthvað.
TF-Stuð!