Það styttist í kosningar. Ekki það að margir veiti þeim sérstaka athygli.
Á mínum huga hófst niðurlægingartími kosninga á Íslandi þegar Fjölvís hætti að gefa út litlu kosningabækurnar með myndum af efstu frambjóðendum og reitum fyrir fólk til að skrifa inn í allar tölur á kosninganótt.
Auðvitað prenta öll dagblöðin slík kosningablöð, en það er ekki það sama. Pappakápan og heftin í kilinum skilja milli karla í krapinu og snáða í snjónum.
Afi heitinn keypti alltaf Fjölvís-bækurnar og fyrir kosningarnar 1983 fékk ég eintak út af fyrir mig. Þá var ég nýorðinn 8 ára og eldheitur stuðningsmaður Alþýðubandalagsins og Kvennalistans. íhaldið hataði ég náttúrlega eins og pestina og Kratarnir fannst mér ömurlegur þjóðflokkur. Þetta síðarnefnda hef ég væntanlega lært af ömmu. Hún minnti reglulega á þau augljósu sannindi að „helvítis kratarnir svíkja alltaf“.
Miðað við krotið í bókinni hef ég vakað fáránlega lengi, líklega fram að næstsíðustu tölum í Reykjavík. Á borgarstjórnarkosningunum 1986 hékk ég á löppum miklu lengur en allir aðrir í fjölskyldunni – að hluta til vegna þess að ég kunni ekki nógu mikið í tölfræði til að skilja að engar líkur voru á stórfelldri vinstrisveiflu milli klukkan fjögur og sex um morguninn…
Hvað gera pólitískir krakkar í dag þegar engin er Fjölvís-bókin? Varla góna þau á kosningavöku framundir morgun? Er nema von þótt fjari undan kosningaáhuga í samfélaginu?
# # # # # # # # # # # # #
Á dag tókst mér að læsa bíllyklana inni í bílnum mínum á bílaplaninu við Kringluna. Meðan ég beið eftir að Steinunn næði í mig leit ég í plötubúð og keypti Síberíu með Echo & TB og nýjustu Morrissey plötuna. Fátt er svo með öllu illt.
Stormy Weather er bara fjári gott lag. Ian McCulloch er tæknilega betri söngvari í dag en fyrir fimmtán árum. Er ekki fjarri því að það eigi hluta í því hvers vegna sumir pirra sig á því hvernig hann gerir gömlu lögunum skil á tónleikum. Þau eru vissulega ekki eins og á plötunum – hvernig væri annað hægt?
# # # # # # # # # # # # # #
Keith Richards er víst ekki dauðvona eftir pálmatrjáaklifurs-slysið. Það gat svo sem ekki verið að þetta yrði honum að aldurtila – hugsið ykkur kaldhæðnina í því ef Keith Richards hefði eftir allt sem á undan er gegnið dáið í íþróttaslysi!
# # # # # # # # # # # # # #
Á laugardaginn er stóri fundurinn hennar Steinunnar. Það er ómögulegt að spá fyrir um hvor muni hafa betur í kosningunni, hún eða Sigurbjörg formaður. Miðað við söguna má ætla að fundarmenn verði ekki færri en tvöhundruð. Svona kosningar eru aldrei skemmtilegar, einkum þegar gamlir samherjar takast á. Held samt að þetta geti orðið félaginu til framdráttar þegar allt kemur til alls.
# # # # # # # # # # # # #
HM nálgast óðfluga. Ég er samt ekki kominn í neina stemningu.
Nú geri ég mér takmarkaðar vonir um að mínir menn í Trinidad & Tobago fari alla leið í keppninni. Hverja á ég þá að styðja að þeim gengnum? Argentínu? Hollendinga? Tékka? – Hér er stórvandamál í uppsiglingu.
# # # # # # # # # # # # #
Endalaust er rætt um þennan helv. Reykjavíkurflugvöll í fréttunum og hvar hann eigi að vera staðsettur. Ég hef leyst vandamálið.
Hann á að vera í Garðabæ – nánar tiltekið á þaki IKEA-hússins sem þar er verið að reisa. Eftir að hafa séð stærðina á því ferlíki skal enginn segja mér annað en að þar verði hægt að lenda litlum rellum bæði frá norðri til suðurs og frá austri til vesturs.