Þess sér bráðum stað í íslenska vegakerfinu að herinn sé að pakka saman. Á Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar, sem barst heim í gær, er auglýst útboð tengingar Garðskagavegar og Hafnavegar. Þessi vegtenging hefði ekki komið til greina hér fyrr á árum vegna njósnakapalsins sem þarna kom á land – að mig minnir í Þórshöfn.
Eins og staðan er í dag lýkur Garðskagavegi við Stafnes og því hefur ekki verið hægt að keyra meðfram sjónum milli Sandgerðis og Hafna. Þetta mun nú breytast. Með þessum vegi fjölgar möguleikum ferðamanna varðandi skemmtilegar ökuferðir um Suðurnes.
Sumarið 1996 vann ég verkefni fyrir Fræðasetrið í Sandgerði tengt sögu staðarins, þá búinn með eitt ár í sagnfræði. Meðal verkefnanna var gerð gönguleiðakorts með sögulegum upplýsingum fyrir ferðafólk. Þar sýndum við svæðið frá Garðinum til Hafna. Nú er strandstaður silfurskiptsins Jamestown að komast í alfaraleið og sömu sögu má segja um Hunangshellu, en þar hafðist við sæskrímsli sem ógnaði vegfarendum. Með því að rjóða hunangi á grjóthelluna tókst hins vegar að lokka kvikindið og skjóta með silfurkúlu.
# # # # # # # # # # # # #
Nú vilja allir fá stórbrautir á höfuðborgarsvæðinu í stokka. Og þar er ekki verið að tala um litla stubba heldur heilu göturnar og byggja svo ofaná öllu saman.
Fyrir nokkrum árum, þegar fyrst var farið að nefna þessar stokkahugmyndir létu menn sér nægja að ræða um einn og einn smástubb. Miklabraut milli Lönguhlíðar og Snorrabrautar var nefnd og eins einhverjar götur niðri við gömlu höfnina.
Sigurður Grétar umsjónarmaður Lagnafrétta í Mogganum var þó alla tíð stórhuga. Það eru mörg ár síðan hann skrifaði fyrsta pistilinn í Lagnafréttir (jarðgöng eru jú líka lagnir) þess efnis að Reykjavík ætti að stefna að því að koma öllu stofnbrautakerfi sínu niður í jörðina. Þeir labbakútar í fréttamannastétt sem nú keppast við að taka viðtöl við Hrafn Gunnlaugsson sem hugmyndafræðing í skipulagsmálum Rvíkur ættu frekar að ræða við Sigurð Grétar.
# # # # # # # # # # # # #
Ekki byrjar fótboltasumrið vel hjá FRAM, KR og Val. Sælt er sameiginlegt skipbrot.
# # # # # # # # # # # # #
Fréttablaðið segir í dag frá því að Eiður Smári sé orðaður við Hearts. Það væri vel til fundið hjá Eið að ganga til liðs við Edinborgarmenn og gera atlögu að skoska titlinum næsta vetur.
# # # # # # # # # # # # #
Sverrir Guðmunds er mættur til starfa á Minjasafninu. Við erum því fjórir hér á safninu sem stendur (það er þó bara í örfáa daga, enda verða menn í stórum stíl í ferðalögum í allt sumar). Það er því um að gera að nýta mannskapinn og góða veðrið til að ryðja til í geymslunum.