Fyrra árið sem ég var dómari í framhaldsskólaspurningakeppninni hjá RÚV lentu MR og Borgarholtsskóli saman í undanúrslitum. Borghyltingar unnu og þóttu það mikil tíðindi. Eftir þáttinn voru stjórnendur í Efstaleiti himinlifandi, enda ljóst að þessi úrslit myndu auka vinsældir keppninnar. Eitt skyggði þó á gleði þeirra.
Um leið og upptöku á þættinum lauk, um sexleytið, fóru úrslitin að spyrjast út. Gestir á keppninni sendu SMS um allar trissur, fólk ljóstraði upp úrslitum á bloggsíðum og afkastamikill bloggari skellti úrslitunum meira að segja í nikkið á MSN-inu sínu til að tryggja að allir vinir sínir vissu lokastöðuna áður en þátturinn fór í loftið.
Á fyrsta fundi eftir keppnina dramatísku, kom einn af æðstu yfirmönnum RÚV inn á GB-undirbúningsfund og upplýsti að vegna þessa hefði verið ákveðið á frá og með 2005 yrðu allar sjónvarpskeppnir í beinni útsendingu. Það væri einfaldlega óþolandi fyrir RÚV að vinsæll sjónvarpsþáttur væri eyðilagður fyrir þúsundum manna með því að úrslitin kvisuðust út.
Á gær sýndi RÚV næstsíðasta þáttinn í 2. seríunni af Lost. Það þýðir að lokaþátturinn verður sýndur þegar komið er fram í miðjan júlí. Nokkrir mánuðir eru síðan seríunni lauk í Bandaríkjunum og í Bretlandi var lokaþátturinn fyrir á að giska 5-6 vikum. Fjöldi fólks hefur fyrir vikið getað lesið um framvindu mála á netinu og geysimargir freistast til að sækja sér þættina.
Nú myndi ég skilja þessa tilhögun ef um væri að ræða fyrstu þáttaröð, sem RÚV hefði ekki fest kaup á fyrr en eftir að vinsældir erlendis hefðu komið í ljós. En því er ekki að heilsa í þessu tilfelli. Varla getur það verið keppikefli RÚV að sjónvarpsseríum ljúki um miðjan júlí – það fellur ekki vel að skiptingunni í sumar- og vetrardagskrá.
Getur einhver skýrt þetta nokkurra vikna bil milli sýninga hér og erlendis? Hangir þetta saman við kaupsamninga á myndefninu eða er þetta bara slóðaskapur? Hvers vegna gildir ekki sama prinsip varðandi sýningar á erlendum sjónvarpsþáttum og með beinu útsendingarnar frá GB? Spyr sá sem ekki veit.