Um daginn var ég beðinn um að taka að mér smáverkefni.
Félag kvikmyndafræðinema stendur fyrir sýningum í Stúdentakjallaranum á þriðjudagskvöldum og í kvöld á ég að kynna óformlega myndirnar sem sýndar verða.
Þetta verkefni virtist sakleysislegt – en það er búið að eyðileggja fyrir mér daginn.
Lokamynd kvöldsins er nefnilega Komið og sjáið, hvítrússnesk mynd frá 1985. Ég sá þessa mynd fyrir mörgum, mörgum árum síðan og það er eitthvert versta sjokk sem ég hef orðið fyrir. Engin önnur kvikmynd hefur haft önnur eins áhrif á mig og margar senurnar límdust í huga mér og sátu þar í mörg ár.
Núna eru þær búnar að vera að rifjast upp hver á fætur annarri – og depurðin eykst í beinu samhengi. Mig langar mest að fara skæla og halda svo beint heim að leika við litlu stelpuna mína – og gleyma svo öllu um þessa kvikmynd.
Það eru víst allir velkomnir í Stúdentakjallarann í kvöld. Dagskráin hefst kl. 20 á stuttum myndum áður en ósköpin dynja á. Ef þið viljið sjá ógleymanlega bíómynd þá mætiði í kvöld… en það er búið að vara ykkur við afleiðingunum.