Banatilræði

Á kvöld var mér sýnt banatilræði. Það kom úr óvæntri átt. Ekki átti ég von á að Steinunn vildi mig feigan.

Þegar ég kom heim úr boltanum í­ kvöld og rölti inn í­ eldhús að sækja mér vatnsglas, lá freistandi lí­till Baby-Bel ostur á eldhúsbekknum. Eins og dyggir lesendur þessarar sí­ðu vita, er ég sólginn í­ Baby-Bel osta. Jafnvel þegar þröngt er í­ ári og VISA-kortið notað til hins ýtrasta, á ég það til að smeygja einu neti af Baby-Bel í­ innkaupakörfuna, þótt þessi vesælu sex oststykki kosti tæpan 300 kall.

Fyrsta hugsun mí­n var vitaskuld: nú ber vel í­ veiði – Steinunn hefur farið í­ búðina, keypt Baby-Bel en einhverra hluta vegna skilið eitt stykkið eftir á borðinu.

Eðlileg viðbrögð hefðu verið að rí­fa utan af ostinum, sökkva tönnunum í­ hann og sporðrenna í­ tveimur bitum. – En einhver efi nagaði mig. Ég skildi ekki hvað Steinunn hefði átt að þvælast út í­ búð á miðju kvöldi. Og í­ í­sskápnum var ekki að finna aftekið net af Baby-Bel.

Á tortryggni minni hélt ég aftur af osta-fí­kninni og spurði Steinunni, sem skriðin var upp í­ rúm, hvernig stæði á ostinum frammi á borði. „Já hann“ – svaraði hún – „ég var að gramsa í­ ferðatöskunni okkar frá því­ að við fórum í­ brúðkaupið til Belgí­u í­ sumar og rakst á þennan gamla ost. Ætlaði einmitt að skoða hvort hann væri orðinn grænn, en gleymdi því­ svo…“

Nú er ég hvorki læknir, næringarfræðingur né sérfræðingur á sviði efnavopnahernaðar – en það skal enginn segja mér annað en að ostur sem geymdur hefur verið í­ fjóra mánuði við stofuhita sé baneitrað helví­ti. Ætli þetta sé ekki það næsta sem ég hef komist dauðanum?