Á októbermánuði stóð ég fyrir spurningakeppninni “Kannastu við kauða?†– þar sem spurt var um karla: lífs eða liðna, menn úr sögunni jafnt sem bókmenntum. Fékk ég bágt fyrir þessa karlrembu.
Auðvitað stóð alltaf til að halda aðra keppni helgaða konum. Að tillögu Kolbeins Proppé hefur sú keppni fengið heitið: “Beðið um beðjunafnâ€. Leikreglur eru þær sömu og fyrr, giska má eftir hverja vísbendingu í athugasemdakerfið.
Á fyrri keppninni var spurt um 13 karla og mig í miðjunni. Þetta hafði augljósa vísun í Jesú og postulana, en ekki síður í jólasveinana sem eru 13 samkvæmt sumum heimildum. Aðrir segja jólasveinana vera einn og átta. Til að koma til móts við þá sem aðhyllast þessa tölu verður að þessu sinni aðeins um níu umferðir að ræða. Það er líka passlegt að konurnar fái 9 spurningar á móti 13 spurningum karlanna – er það ekki um það bil kynbundni launamunurinn?
* * *
Fyrsta umferð, fyrsta vísbending:
Konan sem um er spurt er einkum kunn vegna ástarsambands síns við frægan karl. Það er ekki að öllu leyti sanngjarnt, því konan er t.a.m. mikilvirkur dagbókarritari og hafa þær endurminningar hennar ratað á prent.
Kona þessi átti bæði bróður og systur. Bróðirinn kvæntist tvíburasystur ástmanns konunnar, en þau hjónakornin neyddust til að flytja skyndilega á brott og eru afdrif þeirra ráðgáta.
Beðið er um beðjunafn.