íi, ái, ái. Á gær gerðist það í þriðja sinn í sögu Spurningakeppni framhaldsskólanna að lið náði ekki nema tveimur stigum. Það var Iðnskólinn í Hafnarfirði sem mátti upplifa þennan skell. Ég þekki fólk sem slekkur á útvarpinu þegar svona lagað gerist. Það er einfaldlega afleitt útvarpsefni að hlusta á lið engjast með þessum hætti.
Fyrir nokkrum misserum hafði ég orð á því að liðum sem væru gjörsamlega úti á þekju færi fækkandi og að „veikari“ skólarnir væru að taka sig á. Mér sýnist því miður að sú þróun sé að ganga til baka. Sumir skólar, jafnvel fjölmennar menntastofnanir, eru að spóla í sömu hjólförum ár eftir ár.
Hér eru nokkur einföld ráð til slakra liða sem vilja skríða upp í tveggja stafa töluna:
i) Verið búin að hlusta á a.m.k. eina keppni. Það er meira að segja hægt á netinu. Reynið að áætla hversu mörgum stigum þið hefðuð náð ef um skriflegt próf hefði verið að ræða. Segjum t.d. að það væru 13-14 stig, stefnið þá á 10-11. Þetta er talan sem þið eigið að hugsa um, ekki stigin hjá andstæðingunum.
ii) Gleymið hugtakinu „hraðaspurningar“. Það eru bara sterku liðin sem græða á því að fara mjög hratt yfir. Þetta er einfalt reikningsdæmi -Â lið sem svarar mjög hratt kemst yfir 5-6 spurningum meira en lið sem svarar mjög hægt. Til að ná þessum hraða er líklegt að hraðskreiða liðið klúðri tveimur svörum sem það hefði annars náð. Sá fórnarkostnaður borgar sig fyrir lið sem er með meira en helmingssvarhlutfall. Annars ekki. Fyrir mjög slakt lið getur hreinlega borgað sig að stoppa og ræða málin sín á milli þegar kemur að spurningu sem liðsmenn eiga að geta svarað. – Orðið „pass“ er óvinur ykkar.
iii) Lesið Moggann og Fréttablaðið. Ef liðið var valið daginn fyrir keppni er augljóslega ekki hægt að sökkva sér oní lestur alfræðibóka. En ekki mæta á staðinn án þess að hafa lesið í gegnum Moggann og Fréttablaðið 1-2 daga fyrir keppni. Og þá er ég að tala um að renna í gegnum ALLT blaðið – leikhúsauglýsingarnar, stöðuna í fótboltanum, erlendar fréttir o.s.frv. Þetta er 2 klst. vinna en á að skila 2-3 stigum sem annars hefðu ekki komið.
iv) Takið æfingu í hraðaspurningum. Ekki pæla í því að láta semja spurningar fyrir það sérstaklega, enda eru gæðin á spurningunum ekkert atriði heldur það eitt að hafa prófað að svara hraðaspurningum áður en komið er fyrir framan hljóðnemann. Trivial Pursuit er fínt. Allt sem þið þurfið er einn samnemandi til að lesa Trivial pursuit-spurningar eins og hraðaspurningar í klukkutíma. Það tryggir 1-2 stig í viðbót.
v) Ef allt fer í steik í keppninni – EKKI reyna að bæta úr því með því að „slá á létta strengi“. Ekki fara að svara „Davíð Oddsson“ og flissa í hvert sinn sem þið vitið ekki svarið – nema að markmiðið sé að uppskera andúð fólks heima í stofu.
Það voru ísfirðingar sem voru svo „lánsamir“ að mæta Hafnfirðingum. Þeir luku keppni með 20 stig, en fengu svo sem svarréttinn við hverri einustu spurningu þannig að lítið er að marka stigaskorið. Mér fannst lið MÁ þó virka snaggaralegt. Það er ekki borið uppi af einum manni og hraðaspurningarnar báru með sér að það er eitthvað búið að æfa. Er þetta kannski árið sem ísfirðingum tekst að komast í sjónvarp? Ef það gerist væri óverjandi annað en að Sjónvarpið yrði með útsendingu að vestan (fjármálastjóra RÚV til lítillar gleði).
MS átti ekki í vandræðum með Snæfellinga. Ari virtist nú ekki hafa mikinn stuðning af félögum sínum. Það verður að breytast ef MS ætlar að verða meira en slakt fjórðungsúrslitalið. Ekki vandar reynsluna í þjálfaraliði MS-inga, svo ég hef fulla trú á að liðið taki framförum.
MK er í svipaðri stöðu og MS. Þar er nokkur hefð fyrir skynsamlegum vinnubrögðum í GB, enda á skólinn að komast í sjónvarp í meðalári. 20 stig gegn fremur slöku liði Sauðkrækinga er tæplega ásættanlegt fyrir Kópavogsbúa. Aðstandendur liðsins verða sömuleiðis að stoppa svona vitleysisgang í hraðaspurningunum. Það er ekkert grætt á að öskra svörin. MK-liðið er ekki það sterkt að það græði á að reyna að svara svona hratt. Með því að fara hægar yfir í hraðanum hefði liðið örugglega tekið 2-3 stig í viðbót. Sömuleiðis er það merki um taugaveiklun að gjamma svar í víxlspurningum þegar svarrétturinn er hjá hinu liðinu.
Spurningarnar hans Davíðs voru fínar. Vonandi fer þó víxlspurningum beint af vef Alþingis eitthvað að fækka – en dómarinn á þó samúð mína alla, það engin glóra í að spreða bestu spurningunum í fyrri útvarpsumferðinni.
Á kvöld mun Borgarholtsskóli vinna léttan sigur á Húsvíkingum. Iðnskólinn í Reykjavík er sigurstranglegra liðið gegn Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum (þetta gæti þó orðið skuggalega stigalágt). Varðandi FB og Kvennó er erfitt að spá. Ætlar þrautagöngu Breiðhyltinga aldrei að ljúka? Þetta var stórveldi í GB fyrstu árin, en hefur lítið getað í seinni tíð.
Kvennaskólinn er með hreint strákalið í ár. Ætli það sé í fyrsta sinn? Fyrr í vetur höfðu Kvennskælingar reyndar samband við mig og voru að leita sér að þjálfara. Ég benti þeim á nokkra mögulega kosti. Veit ekki hvað varð úr því – en það bendir til að einhver metnaður sé í skólanum.
Vek athygli á því að enn einu sinni er stelpnahallæri í keppninni. Mögulega verður bara eins stelpa komin áfram í 2. umferð eftir þriðja kvöldið (af átján keppendum). MA verður reyndar með tvær í sínu liði og MH klikkar tæplega. En þetta er samt ferlega dapurt.
# # # # # # # # # # # # #
Eftir fótboltann í gær rak ég nefið inn á Kaffi Kúltúra á Hverfisgötunni. Þar er hægt að fá dökkan Leffe á krana. Það er góður drykkur sem allir ættu að fá sér – nema Moggabloggið, það ætti að drekka arsenik.