Frambjóðandinn í kosningu Framsóknarmanna í NA-kjördæmi, sem lofaði að borga 2 milljónir í hússjóð flokksfélaganna á Akureyri, hefur rækilega komist í fréttirnar. Einhverjir hafa velt því fyrir sér hvort þetta teljist mútur og þannig siðferðislega á gráu svæði.
Mér finnst hins vegar áhugaverðara að velta fyrir mér þessu loforði í ljósi væntanlegra laga um fjármál stjórnmálaflokkanna. Má þetta?
Nú er búið að reisa skorður við greiðslum til flokkanna sjálfra. Gott og vel. En hvað með húsfélögin? Stjórnmálaflokkarnir eiga allir talsverðar fjárhæðir bundnar í húsnæði, með beinum og óbeinum hætti. Yngstu flokkarnir, VG og Frjálslyndir, eiga (og það varla skuldlaust) húsnæði fyrir kannski 20-30 milljónir. Samfylkingin tók með sér eignir og skuldir flokkana sem runnu inn í hana. Þar er um að ræða húsnæði fyrir mörghundruð milljónir, ef allt er talið saman. Framsóknarflokkurinn hefur yfir að ráða stóru húsnæði á dýrum stað við Hverfisgötuna og vitaskuld húseignir um allt land. ín þess að hafa nein gögn í höndunum myndi ég giska á að Sjálfstæðisflokkurinn eigi húsnæði fyrir meira en 2 milljarða þegar reiknað er saman mögulegt söluandvirði Valhallar og fjölda félagsheimila um land allt. Kannski talan sé enn hærri?
Auðvitað eru flokkarnir sjálfir í fæstum tilvikum skráðir eigendur þessara húsa. Það er m.a. vegna þess að þá yrðu þær í sífelldu uppnámi vegna kosningaskulda o.þ.h. Þess í stað eru hvers kyns hússjóðir starfræktir eða hlutafélög sem hafa það í stofnskrám sínum að leggja einstökum stjórnmálafélögum til húsnæði ókeypis eða gegn lágri leigu. Á einhverjum tilvikum geri ég ráð fyrir að flokkarnir eða flokksfélög fái beint rekstrarfé af leigu á slíku húsnæði til þriðja aðila.
Þetta er tæplega bannað með nýju lögunum og raunar vandséð hvernig hægt væri að banna það. Það er kannski hægt að reka eina kosningabaráttu eða prófkjör á sölu happdrættismiða og samskotum í kaffisjóð – en húsnæði er ekki keypt nema með stærri framlögum. Oft mjög rausnalegum framlögum einstaklinga. Og ef stofnað væri einkahlutafélagið Mýrarrauður með það að markmiði að kaupa hús fyrir Norðurmýrarfélag VG, þá er ekkert því til fyrirstöðu að við Steinunn keyptum hlutabréf í því fyrir hálfa aleigu okkar – hlutabréf sem væru í raun styrkur, því af þeim væri aldrei greiddur arður.
Hvort skyldi nú skipta meira máli fyrir stjórnmálaflokk að geta haldið úti skrifstofu á dýrum stað í miðbænum fyrir málamyndahúsaleigu – eða hvort hámarksgreiðsla í kosningasjóð frá fyrirtæki sé hundraðþúsundkallinum hærri eða lægri?
Ef mönnum er alvara með að opna fjármál stjórnmálaflokkanna, þá hlýtur krafan að vera sú að fjármál allra þessara hússjóða og eignarhaldsfélaga fari upp á borðið líka. Þar eru hinar raunverulegu fjárhæðir sem verulegu máli skipta.
# # # # # # # # # # # # #
Luton seldi Rowan Vine til Birmingham. Markmiðið virðist greinilega vera að ná sem flestum 0:0 jafnteflum til vors – því ekki eigum við neinn markaskorara.
Kaupverðið er 2,5 milljónir punda – en með ákvæði um að sú upphæð hækki upp í 3 milljónir ef Birmingham fer upp um deild. Svona ákvæði finnst mér vera á verulega gráu svæði. Fyrir Luton eru 500 þúsund pund gríðarleg fjárhæð. Við höfum því mikla hagsmuni af því að öðru liði í sömu deild gangi vel. Reyndar erum við búnir að spila báða leikina gegn Birmingham í ár, en hvað ef svo hefði ekki verið? Hugsum okkur leik í lokaumferðunum þar sem við hefðum ekki að neinu að keppa, andstæðingarnir væru Birmingham og hálf milljón í húfi?
Svona ákvæði ganga einfaldlega ekki upp. Það er eitthvað rotið við þetta – ekki ósvipað og Moggabloggið.