Fyrsta kosninganóttin sem ég man eftir var eftir Alþingiskosningarnar 1983. Ég var nýorðinn átta ára og með bullandi áhuga, vopnaður kosningahandbót Fjölvís. Á kosninganóttina gistum við heima hjá afa og ömmu á Neshaganum (nema mér hafi bara verið komið þangað í pössun, en mamma og pabbi farið út á galeiðuna). Amk. vakti ég lengur en nokkur annar og náði jafnvel einhverjum lokatölum.
Síðan hef ég ekki misst út kosningavöku í sjónvarpi. Ég er einn af tölfræðinördunum sem sit útí horni fyrir framan sjónvarpsskjáinn í miðri kosningagleðinni og reyni að reikna út hversu mikil tilfærsla atkvæða þurfi að eiga sér stað til að uppbótamenn færist milli flokka. (Ég sakna „flakkarans“ – hann var frábær kosningafídus.)
Eitt böggar mig þó óstjórnlega við kosningavökur sjónvarpsstöðvanna – það er amatörisminn í byrjun kvöldsins. Þar á ég ekki við amatörisma af hálfu sjónvarpsstöðvanna, heldur þeirra sem stýra talningu og framkvæmd kosninga.
Dæmigerð kosningavaka byrjar á þessa leið:
Grafískar útfærslur eru kynntar fyrir áhorfendum og rabbað við stjórnmálafræðing. Svo er tekin stemningin í einhverjum súrum partýum hjá þotuliði. Loks verður klukkan 22. Þá byrjar vitleysisgangurinn – sumir formenn kjörstjórna líta á það sem persónulegt metnaðarmál að vera fyrstir með tölur. Reykjaneskjördæmi, nú SV-kjördæmi, er yfirleitt fyrst í kapphlaupinu – en í annað hvert skipti með þeim afleiðingum að tölurnar ruglast, formaðurinn gleymir að byrja á heildaratkvæðatölunni eða e-ð álíka.
Eftir fyrstu tölur úr Hafnarfirði byrjar kaosið fyrir alvöru. Fréttamaðurinn á Strandgötunni ætlar að tala við e-a frambjóðendur, þulirnir í sjónvarpssal vilja skoða grafíska sundurliðun og stjórnmálafræðingurinn fer að mala eitthvað. Stöðugt er gaggað í eyru fólksins í útsendingunni að fyrstu tölur séu að koma eða ekki koma frá hinu og þessu kjördæminu – allir verða stressaðir, byrjað er á viðtali og klippt er á það í miðju því að það eru kannski að koma tölur frá Akureyri… Meðan á þessu stendur skipta áhorfendur heima í stofu í sífellu milli stöðva af ótta við að missa af einhverju og missa fyrir vikið af öllu.
En nú hef ég ákveðið að leysa þetta vandamál í eitt skipti fyrir öll. Á staðinn fyrir þennan vitleysisgang, legg ég til að formenn kjörstjórna hittist á fundi fyrir kosninganóttina og útkljái málið – eða það sem betra er: að ég verði settur í að semja dagskránna.
Fyrstu drög eru á þessa leið:
22:01 – fyrstu tölur úr Reykjavík-suður. Þar sem þetta eru fyrstu tölur kvöldsins fá stöðvarnar góðan tíma til að velta þeim fyrir sér með allri mögulegri og ómögulegri grafík og fá álit sérfræðinga.
22:10 – fyrstu tölur úr NA-kjördæmi og svo beint á eftir, kl. 22:13 – fyrstu tölur úr SV-kjördæmi. Nú er nóg til að smjatta á fyrir sérfræðinga í nokkrar mínútur.
22:25 – fyrstu tölur úr NV-kjördæmi og svo beint á eftir, kl. 22:28 – fyrstu tölur úr Reykjavík-norður
22:40 – fyrstu tölur úr Suðurkjördæmi. Formannaviðtöl.
Á mínum huga er fátt mikilvægara við framkvæmd kosninga en að þær séu fálmlausar. Við viljum formfestu og íhaldssemi á kjörstað – og helst lögreglumann í fullum skrúða hrópa upp tilkynninguna um lokun kjörstaða. Hvers vegna eiga aðrar reglur að gilda um hvernig úrslitin eru tilkynnt? Hvers vegna eiga menn þá að hlaupa um eins og hauslausar hænur í stað þess að vinna þetta skipulega og af festu?
Dómsmálaráðuneytið hefur hér með heimild mína til að nota hugmyndina við framkvæmd kosninga. Sendi svo bara reikning með vorinu.
# # # # # # # # # # # # #
„É pinsessa!“ – Þetta tilkynnti barnið okkur eftir að komið var heim úr leikskólanum í dag. Raunar eru þessir rojalísku tilburðir ekki nýir af nálinni. Hún á það nefnilega til að leiða okkur að tösku einnar stelpunnar úr eldri deildinni í fatahenginu í Sólhlið, þar sem vissulega gefur að líta þrjár prinsessur, benda og segja: „Pinsessa“ – „Ónlína“ – „Mamma“ eða jafnvel „Pabbi“.
Hvað klikkaði í uppeldinu? Nú höfum við rækilega gætt að því að kalla barnið aldrei „prinsessu“. Hvernig útskýrir maður fyrir tæplega tveggja ára stelpu að foreldrar hennar séu lýðveldissinnar og unni sér ekki hvíldar fyrr en síðasti aðalsmaðurinn hangir í görnum hins síðasta klerks?
Mér dettur raunar fleiri í hug sem mættu að ósekju dangla í skeifugörn hins prestlærða…